Þingflokkur Pírata hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að þingflokkurinn sé tilbúinn að afgreiða frumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um breytingar á stjórnarskrá úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og ljúka vinnu við það fyrir komandi kosningar.
Píratar segjast einnig styðja að Alþingi komi saman í haust, á svokölluðum þingstubbi, til þess að taka frumvarpið til lokaafgreiðslu, en veruleg óvissa er uppi um það hver örlög frumvarpsins verða. Það játaði forsætisráðherra sjálf í viðtali við Heimi Má Pétursson í Víglínunni á Stöð 2 um liðna helgi.
Samstarfsflokkar VG hafi ekki áhuga á málinu
Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar segir við Kjarnann að Píratar muni ekki standa í vegi fyrir því að málið fari úr nefnd og fái umræðu í þingsal. Hann segir ýmislegt gott í frumvarpi Katrínar, en hans upplifun sé að það séu tveir flokkar í stjórnarsamstarfinu sem hafi engan áhuga á að gera eitthvað með frumvarp forsætisráðherra.
Hann segir góða vinnu hafa verið unna í nefndinni eftir að frumvarpið var lagt fram á þingi, en að síðan hafi lítið gerst. Það sé því hans upplifun, nema eitthvað breytist núna og málið komist út úr nefnd, að málið allt sé pólitískt „sjónarspil“ og hafi verið lagt fram bara „til að leggja eitthvað fram.“
„Við viljum málið úr nefnd svo að það sé hægt að ræða stjórnarskránna,“ segir Jón Þór og segir það einu skipta hvort einhver sátt náist í nefndinni eða ekki. Þá verði það bara þingmanna að ræða málið áfram og taka afstöðu til breytingartillagna sem hafa komið fram.
Kalla eftir þjóðaratkvæði
„Verði frumvarpið samþykkt á Alþingi telja Píratar rétt að frumvarpið verði svo borið undir þjóðaratkvæði áður en nýtt þing tekur það til afgreiðslu,“ segir í yfirlýsingu þingflokks Pírata.
Þar segir einnig að ef frumvarpið dagi uppi í nefndinni og komi ekki til afgreiðslu þingsins sé það „lágmarkskrafa“ Pírata að afgreitt verði breytingarákvæði á stjórnarskránni sem tryggi möguleikann á breytingum á stjórnarskrá í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.