Allar aflaheimildir ætti að bjóða til leigu á opnum markaði, leigugjaldið ætti að renna til ríkisins og öll úrslit uppboða ættu að vera opinberar upplýsingar, samkvæmt nýrri stefnu Pírata um sjávarútvegsmál.
Píratar samþykktu stefnuna í dag, en 84 greiddu atkvæði um tillöguna á netinu. Þeir vilja einnig taka upp auðlindaákvæði úr frumvarpi stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá.
„Allur afli skal fara á markað til að gera viðskipti með sjávarútvegsafurðir eðlilegri og bæta hag sjómanna, minni sjávarútvegsfyrirtækja og annara fyrirtækja sem vinna með afleiddar afurðir,“ segir í ályktun Pírata. Handfæraveiðar eigi að vera frjálsar, störf Hafrannsóknarstofnunar verði „gerð gagnsæ og starfshættir hennar aðgengilegir almenningi.“ Þá vilja Píratar að eftirlitshlutverk Samkeppnisstofnunar verði tryggt og Landhelgisgæslan verði stórefld til að að hafa eftirlit.
Segja útvegsmenn hamast á almenningi
Í greinargerð með ályktun Pírata kemur fram að með stefnu þeirra muni útvegsmenn sjálfir ráða því hversu mikið sjávarútvegurinn borgar fyrir réttinn til að veiða, í gegnum virkan uppboðsmarkað.
„Þegar ríkið ákveður veiðigjöld hafa útvegsmenn og samtök þeirra gífurlega hagsmuni af því að þrýsta á stjórnvöld, hamast á almenningi með áróðri og skekkja bókhald sitt með ýmsum aðferðum til að stilla stöðunni þannig upp að útvegurinn líti út fyrir að vera illa greiðsluhæfur og rökstyðja þannig kröfur um lækkuð gjöld.“
Ef markaðsverð myndist á frjálsum uppboðsmarkaði hvetji það hins vegar útvegsmenn til að „færa bókhald sitt í eðlilegt lag, sýna raunverulega rekstrarstöðu og mun leiða til eðlilegrar eiginfjármyndunar í greininni.“ Með því að upphæð veiðigjalds myndist á markaði geti útvegurinn ekki haldið því fram að verið sé að oftaka gjöld af greininni, „því útgerðirnar bjoða einfaldlega ekki hærra en það sem atvinnugreinin rís undir. Ekki er síður mikilvægt að þegar veiðigjöld eru rýr í erfiðu árferði mun ekki vera hægt að áfellast útvegsmenn af þessari sömu ástæðu: greinin greiðir einfaldlega ekki meira en hún getur. Með þessum hætti verður sátt i þjóðfélaginu um veiðigjöld, hvort sem þau eru há eða lág frá ári til árs.“