Í gær var kunngjört að hljómplatan Sorrí með Prins Póló hefði verið tilnefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna sem besta plata ársins 2014. Tólf plötur eru tilnefndar í flokknum, þar af tvær íslenskar en platan Trash From the Boys með íslensku sveitinni Pink Street Boys hlaut sömuleiðis tilnefningu. Úrslitin verða kynnt á tónlistarhátíðinni By:Larm í Noregi þann 5. mars næstkomandi.
Platan Sorrí með Prins Póló toppaði ófáa árslista tónlistarspekúlantanna, og hefur almennt hlotið frábæra dóma gagnrýnenda. Fréttablaðið, Fréttatíminn og Reykjavík Grapevine völdu hana til að mynda sem plötu ársins og þá hafnaði hún í öðru sæti í vali hlustenda Rásar 2 á plötu ársins. Þá hlaut Prins Póló nýverið hlustendaverðlaun 365 fyrir lagið París Norðursins úr samnefndri kvikmynd, þar sem hljómsveitin samdi tónlistina. Þá hlaut Prins Póló fjórar tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna, sem afhent verða 20. febrúar næstkomandi, sem og tilnefningu til Edduverðlaunanna fyrir bestu tónlist í kvikmynd, fyrir París Norðursins. Eddu-verðlaunaafhendingin fer fram 21. febrúar.
Nóg að gera hjá Prins Póló fjölskyldunni
Hljómsveitina Prins Póló skipa Kristján Freyr Halldórsson, Benedikt Hermann Hermannsson, Berglind Häsler og prinsinn sjálfur, Svavar Pétur Eysteinsson. Hann býr ásamt eiginkonu sinni, Berglindi Häsler, og þremur börnum á sveitabænum Karlsstöðum í Berufirði. Þar hefur fjölskyldan staðið í ströngu undanfarna mánuði við að standsetja gestahús á staðnum sem gistiheimili og breyta fjósi í snakkverksmiðju þar sem til stendur að framleiða gulrófuflögur. Gistiheimilið er tilbúið, og verksmiðjan er á lokametrunum og gengur vel.
Fólkið hérna talast mikið saman og hittist mikið, þannig að við erum í ólgandi félagslífi hérna þó við búum á sveitabæ austur í rassgati.
Prins Póló, bóndinn og rokkstjarnan, sér fram á annasaman tíma í febrúar. „Við verðum svolítið að hoppa á milli. Við stöndum í smíðavinnu á Karlsstaðabænum, og stökkvum svo í bæinn um helgar til að spila, hoppa og híast og taka á móti verðlaunum. Það er búið að vera svolítið span á okkur,“ segir Svavar Pétur í samtali við Kjarnann.
Maður reynir að gera sitt besta frá degi til dags
Það má með sanni segja að Prins Póló verði meira og minna með hamarinn í annarri hendi og rafmangsgítarinn í hinni næstu vikurnar. En hvernig gengur að samræma lífstíl frumkvöðlabóndans og rokkstjörnunar við fjölskyldulífið og barnauppeldið? „Sko, uppeldið verður náttúrulega bara að koma í ljós þegar fram í sækir, svona hvernig til tókst. En maður reynir bara að gera sitt besta frá degi til dags, og svo finnur maður alltaf á sínu eigin skinni þegar maður sinnir ekki börnunum eða fjölskyldunni nógu mikið og þá einfaldlega tekur maður sig á í því inn á milli. En annars erum við með mjög velheppnuð börn og mjög velheppnaða fjölskyldu og það hjálpast bara allir að og við reynum að hjálpa öðrum á móti til að þakka fyrir okkur.“
Prinsinn á Karlsstöðum í miðjum jólaundirbúningnum í desembermánuði síðastliðnum.
Svavar Pétur segir vel fara um fjölskylduna í Berufirði, og þar sé mikið félagsstarf og lifandi samfélag þó strjálbýlt sé. „Fólkið hérna talast mikið saman og hittist mikið, þannig að við erum í ólgandi félagslífi hérna þó við búum á sveitabæ austur í rassgati,“ segir Prins Póló og hlær.
Eins og áður segir hefur hljómplatan Sorrí hlotið nær einróma lof gagnrýnenda frá því að hún kom út á síðasta ári. Nýjasta viðurkenningin sem platan hlýtur er áðurnefnd tilnefning til Norrænu tónlistarverðlaunanna. Svavar Pétur segir viðtökurnar við plötunni hafa bæði komið sér á óvart og líka ekki. „Viðtökurnar komu mér mjög mikið á óvart fyrst, en svo fór ég aðeins að hugsa hvort hún ætti að koma mér á óvart. Því að þegar ég byrjaði að gera þessa plötu í janúar 2012 setti ég mér stórt markmið að þessi plata yrði mjög góð. Svo kom platan út og ég spáði ekki mikið í hana eftir það, enda hafði ég nóg annað að gera. Svo byrjaði hún að vekja athygli og fékk þessar viðurkenningar í lok árs og þá kom það mér á óvart því ég var búinn að gleyma því að ég að gera mjög góða plötu. En það er gaman að hugsa til þess að maður geti sett sér markmið og fengið þessa uppskeru í kjölfarið,“ segir Prins Póló í samtali við Kjarnann.
*Forsíðumynd tekin af Baldri Kristjánsssyni ljósmyndara.