Mikið fárviðri geysar nú á Austfjörðum. Af því tilefni hafði Kjarninn samband við tónlistarkonuna Berglindi Häsler, sem býr ásamt eiginmanni sínum Svavari Pétri Eysteinssyni, betur þekktur sem Prins Póló, og þremur börnum í hálfgerðri einangrun á sveitabænum Karlsstöðum í Berufirði.
„Það byrjaði að hvessa snemma í morgun og ég vaknaði við það að svefnherbergishurðin skelltist hressilega, sem mér þótti skrýtið enda áttu allir gluggar að vera lokaðir,“ segir Berglind í samtali við Kjarnann. „Þegar ég kom inn í eldhús þá stóð glugginn hreinlega út og upp í loft. Þá var ekkert annað að gera en að bíða með kaffið og klæða sig í kraftgallann, vopnuð hamri og nagla. Ég hef svo þurft að fara tvisvar út til að gera að glugganum síðan, en það er ágætt að þurfa að fara út öðru hvoru til að athuga hvort allt sé enn á sínum stað.“
Húsfrúin á Karlsstöðum gerir að glugganum sem fauk upp í nótt.
Berglind segir veður á svæðinu hafa versnað mikið upp úr hádegi. Þá hafi þakplötur fokið af hlöðu á bæ í nágrenninu. „Miðað við spár lítur þetta þannig út að unglingurinn verður áfram veðurtepptur á Djúpavogi til morguns, að skólabíllinn sem kemur vanalega klukkan sjö á morgnana, komi ekki neitt og að seinkun verði á Prinsinum sem átti annars að koma í fyrramálið frá Reykjavík. En svona er nú lífið í sveitinni, það er við öllu að búast. En það er þá ekkert annað að gera en að huga að jólum, hita kakó og baka svolítið. Ég á það nú til að gera mjög lítið úr svona löguðu. Hef ósjaldan fullyrt að hér snjói ALDREI. Ég laug. Sorrí,“ segir Berglind í gamansömum tón, og bætir við að annars hafi veturinn verið mjög snjóléttur á svæðinu til þessa.
Standa í ströngu í Berufirði
Tónlistarhjónin, sem jafnframt framleiða Bulsur, fluttu á sveitabæinn Karlsstaði í Berufirði síðastliðið vor ásamt þremur börnum, sem eru eins árs, fjögurra ára og fimmtán. „Við erum að gera upp tæplega þúsund fermetra af fasteignum. Við erum meðal annars að útbúa hér framleiðslueldhús og að breyta gömlum bæ í gistiheimili. Þá á að rækta hér grænmeti á einhverjum hekturum og svo erum við með 60 kindur. Og svo má ekki gleyma tónlistinni enda bóndinn vinsæll um þessar mundir og er einmitt staddur í borginni þessa helgi við tónleikahald. Ég spila í hljómsveitinni Prins Póló og höldum við öll fjölskyldan suður í lok vikunnar því við ætlum að halda tónleika í Iðnó 19. desember. Vonum að það verði bara logn og notalegheit þann daginn. Og svo ætlum við að flýta okkur heim aftur og halda okkar fyrstu jól í sveitinni,“ segir Berglind.
Húsbóndinn og sjálfur Prins Póló gerir klárt fyrir jólin.
Húsfrúin á Karlsstöðum segir að fyrsta sumar fjölskyldunnar í Berufirði, hafi verið mjög eftirminnilegt. „Síðasta sumar var alveg hreint dásamlegt. Hingað komu vinir og vandamenn í stórum stíl, og sumir meira að segja alla leið frá Kanada, og allir lögðu hönd á plóg. Veturinn hefur alls ekki verið síðri. Í vetur höfum fengið til okkar sjálfboðaliða frá ýmsum heimshornum, erum líka með frábæra smiði hérna úr sveitinni og góða nágranna svo það er rífandi gangur í þessu. Vinur okkar, tónlistarmaðurinn Jónas Sigurðsson var líka hjá okkur hérna í byrjun desember og létti okkur vinnuna og lundina. Gistiheimilið verður opnað í sumar og pantanir eru strax farnar að berast. Það er ótrúlega gaman hvað fólk er áhugasamt um þetta ævintýri. Það hvetur okkur áfram.“
En hvernig líður fjölskyldu úr Reykjavík í skammdeginu og einverunni í Berufirði? „Margir spyrja hvernig veturinn fari með okkur. Það er auðvitað fjandi dimmt. En það er svo skrýtið að ég hef sjaldan fundið fyrir jafn litlu skammdegisþunglyndi og núna. Ég skil það ekki alveg, kannski er það nálægðin við náttúruna. Ég virðist fá orku einhversstaðar annarsstaðar frá.“
Kl. 11:25. Sólarupprás.