Breska fjölmiðlafyrirtækið ITV, sem rekur nærri tug sjónvarpsstöðva í Bretlandi, hefur keypt réttinn af hinum íslenska QuizUp-spurningarþætti þar í landi og ætlar að framleiða prufuþátt. Í lok september var greint frá því að bandaríska sjónvarpsstöðin NBC hefði ákveðið að framleiða tíu þátta sjónvarpsseríu sem byggir á leiknum.
Þorsteinn B. Friðriksson, höfundur QuizUp og framkvæmdastjóri Plain Vanilla sem þróar og rekur leikinn, kynnti þáttinn fyrir breskum sjónvarpsstöðum í síðustu viku. Hann er nú staddur í Cannes til að kynna spurningaþáttinn MIPCOM kaupstefnunni sem um 15 þúsund manns sækja heim. Með honum er Viggó Örn Jónsson framleiðandi og munu þeir kynna þáttinn fyrir innkaupa- og dagskrárstjórum sjónvarpsstöðva um allan heim.
ITV er fyrsta evrópska stöðin til að tryggja sér réttinn að leiknum.
Þættirnir ganga þannig fyrir sig að þátttakandi í upptökuveri etur kappi við sjónvarpsáhorfendur sem sitja heima hjá sér og spila leikinn í snjalltækjum sínum. Ef þátttakandinn vinnur átta spurningalotur gegn átta ólíkum keppendum, sem geta verið staddir hvar sem er í landinu, þá geta þeir unnið háa fjárhæð. Ef einhverjir af andstæðingunum vinna sínar lotur, þá hljóta þeir upphæðina sem í boði var fyrir þá lotu.
Í fréttatilkynningu frá Plain Vanilla er haft eftir David Mortimern framkvæmdastjóra hjá NBCUniversal International Studios, að QuizUp leikurinn hafi orði til eftir angt og strangt þróunartímabil innan NBC. "Sjónvarp hefur lengi beðið eftir spurningaþætti sem er nógu spennandi til fá stað á besta tíma í dagskránni og QuizUp er sá þáttur. QuizUp er frábært dæmi um gott samstarf NBCUniversal International Studios við kollega okkar í sjónvarpsgeiranum um að koma með þetta nýja sjónvarpsform á alþjóðlegan markað og samningurinn við ITV er stór áfangi í kynningu og sölu þess hér á MIPCOM, stærstu sjónvarpskaupstefnu ársins."
Þorsteinn segir að staðfærðir sjónvarpsþættir byggðir á QuizUp sem sýndir verða á besta tíma út um allan heim muni styðja við útbreiðslu leiksins. "g átti alls ekki von á því að sjónvarpsstöðvar myndu berjast um réttinn áður en þeir sæju útkomuna hjá NBC en þetta sýnir hvað það er sterkt fyrir okkur að hafa svona öflugan samstarfsaðila við framleiðsluna eins og NBCUniversal International Studios. Þeir eru með virkilega sterkt teymi hér í Cannes sem gaman er að vinna með. Bretland hefur ríka hefð fyrir spurningaþáttum og þar eru þættir sem hafa gengið í sjónvarpi áratugum saman. Við hlökkum til að sjá hvernig QuizUp UK á eftir að koma út.“