Sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að falla frá því að starfsmenn Fiskistofu, að undanskildum Fiskistofustjóra, þurfi að flytja til Akureyrar. Þetta var tilkynnt með bréfi sem Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra afhenti Fiskistofustjóra og fulltrúa starfsmanna á fundi í dag. Starfsmenn telja niðurstöðuna „fullnaðarsigur,“ að sögn Guðmundar Jóhannessonar hjá Fiskistofu.
Ennþá stendur til að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu til Akureyrar, að því gefnu að breytingar á lögum um stjórnarráð Íslands nái fram að ganga á Alþingi. Í stað þess að flytja starfsfólkið til Akureyrar verður starfsmannavelta látin ráða, þannig að Fiskistofustjóri verður á Akureyri auk þeirra starfsmanna stofnunarinnar sem fyrir eru þar og þeim sem óska eftir því að flytjast norður. Að auki stendur til að ráða nýja starfsmenn, að því er fram kemur í bréfi Sigurðar Inga.
Bréf Sigurðar Inga er skrifað í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis þar sem fjallað var um fyrirhugaða flutninga Fiskistofu, sem ráðherrann kynnti í júní í fyrra. Umboðsmaður Alþingis gerði athugasemdir við undirbúning áformanna og samskipti ráðuneytisins við stofnunina og starfsfólk hennar. Í bréfinu kemur fram að ráðuneytið hafi kynnt sér álitið og muni leitast við að fylgja þeim leiðbeiningum sem umboðsmaður veitir með áliti sínu.