Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tekur undir með Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra um að það komi vel til greina að stokka upp í ríkisstjórn Íslands. Hann tekur þó sérstaklega fram að engar breytingar verði gerðar á embætti forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra. Sigmundur Davíð og Bjarni eru því ekki að fara að skipta um sæti. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Þar er haft eftir Sigmundi Davíð að mögulegar breytingar hafi verið ræddar þegar stjórnin var mynduð og að hann og Bjarni hafi nokkrum sinnum rætt síðan þá að það gæti verið æskilegt á einhverjum tímapunkti að fara í einhverskonar uppstokkun. "Það má þó ekki bíða of lengi með það ef það á að verða því að það tekur ráðherra alltaf einhvern tíma að komast inn í nýjan málaflokk. Það hefur hins vegar engin ákvörðun verið tekin um slíkt og engar ákveðnar engar tilteknar breytingar verið ræddar hvað þetta varðar.“
Sigmundur Davíð tekur það hins vegar fram að allir ráðherra hafi staðið sig vel í sínum málaflokkum. Óánægja sé því ekki ástæðan fyrir því að ráðist verði í breytingar heldur að menn vilji fá nýtt sjónarhorn í ráðuneytin.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, hefur sagt að það komi vel til greina að stokka upp í ríkisstjórninni á næsta hálfa árinu og gera breytingar á samstarfi ríkisstjórnarflokkanna. Þetta kom fram í viðtali við Bjarna á Morgunvaktinni á Rás 1 í síðustu viku.
Þar sagði Bjarni: "Mér finnst það vel koma til greina að hreyfa til, bæði milli flokkanna og innan ríkisstjórnarinnar. Ég get vel séð fyrir mér að við gerum einhverjar slíkar breytingar. Við höfum ekki tekið neina ákvörðun um slíkt en á næsta hálfa árinu væri rétt að taka þá ákvörðun um það ef til þess ætti að koma svo menn væru ekki að taka að sér ný verkefni þegar of stutt er til kosninga."
Bjarni sagðist alltaf hafa verið opin fyrir slíkum breytingum. "Við ræddum það við stjórnarmyndunina við Sigmundur að svona í hálfleik myndum við kannski skoða þau mál.“
Tvær breytingar hafa verið gerðar á ráðherraskipan það sem af er yfirstandandi kjörtímabili, sem er nú rúmlega hálfnað. Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér embætti innanríkisráðherra undir lok árs 2014 og Ólöf Nordal, sem hafði stígið út af hinu pólitíska sviði fyrir þingkosningarnar 2013, tók við af henni. Þá var Sigrún Magnúsdóttir gerð að umhverfis- og auðlindarráðherra þann 30. desember 2014 þegar ráðherrum var fjölgað um einn. Áður hafði Sigurður Ingi Jóhannsson farið með ráðuneyti ásamt þeim sem hann stýrir í dag.