„Núna liggur boltinn hjá aðilum samkomulagsins. Við höfum skilað af okkur, þannig að næstu ákvarðanir eru í raun pólitískar. Þessi gögn ættu að gera það að verkum að hægt er að taka ákvarðanir,“ sagði Ragna Árnadóttir í samtali við Kjarnann að loknum blaðamannafundi í dag. Á fundinum var skýrsla Rögnunefndarinnar svokölluðu kynnt, um kosti og kalla flugvallarstæða á höfuðborgarsvæðinu. Er það mat stýrihópsins að Hvassahraun sé álitlegasti kosturinn fyrir flugvöll í Reykjavík.
Ragna segir vinnu nefndarinnar nú að fullu lokið og að ekkert sé að vandbúnaði að taka næstu skref í málinu. „Við fengum þetta verkefni, að skoða flugvallarkosti á höfuðborgarsvæðinu utan Vatnsmýrar. Við bendum á þessa kosti og segjum: Það er enginn gallalaus. Þeir hafa allir sína kosti og galla, en ef það er horft til þróunarmöguleika þá er Hvassahraun álitlegastur.
„Að það náist sátt um það að tryggja rekstraröryggi Vatnsmýrarflugvallar og að þessi mál verði skoðuð áfram á grundvelli okkar niðurstaðna,“ segir Ragna, aðspurð um hvað hún vilji sem formaður stýrihópsins að gerist næst í málinu. Í hópinum sátu auk Rögnu þau Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fyrir hönd ríkisins, Matthías Sveinbjörnsson fyrir hönd Icelandair og Dagur B. Eggertsson fyrir Reykjavíkurborg. Verkefnisstjóri var Þorsteinn R. Hermannsson hjá Mannviti.
Keflavík ekki skoðuð
Nefndin kannaði fjögur ný flugvallarstæði á höfuðborgarsvæðinu og segir Ragna að vinnan hafi verið bundin við höfuðborgina. Þess vegna hafi flutningur innanlandsflugs til Keflavíkur ekki verið skoðað. „Það var ekki hluti af okkar vinnu,“ segir Ragna en sá kostur hefur oft verið nefndur í umræðunni um umdeildan flugvöllinn í Vatnsmýri og framtíð hans.
Flugvallarstæðin sem voru skoðuð eru við Bessastaðanes, Hólmsheiði, Hvassahraun og Löngusker auk þess sem breytt útfærsla á legu flugbrauta í Vatnsmýri var metin. Áætlaður stofnkostnaður yrði í öllum tilvikum á bilinu 22 til 25 milljarðar króna, nema á Lönguskerjum þar sem hann er metinn um 37 milljarðar króna.