Ragnar Jónasson hefur verið ráðinn yfirlögfræðingur fjármálafyrirtækisins GAMMA og mun jafnframt sinna verkefnum á sviði sérhæfðra fjárfestinga, en Ragnar er með fimmtán ára starfsreynslu á fjármálamarkaði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá GAMMA.
Ragnar er cand. jur. frá lagadeild Háskóla Íslands og héraðsdómslögmaður, að því er segir í tilkynningu. Hann hóf störf hjá fyrirtækjaráðgjöf Kaupþings árið 2001 og starfaði síðar á lögfræðisviði bankans, þar af sem forstöðumaður 2005-2008.
Ragnar var forstöðumaður lögfræðiráðgjafar Arion banka, þá Nýja Kaupþings banka, árin 2008 til 2009, og frá árinu 2009 hefur hann gegnt stöðu forstöðumanns skrifstofu slitastjórnar Kaupþings.
Ragnar er jafnframt stundakennari við lagadeild Háskólans í Reykjavík.
Samhliða þessum störfum hefur Ragnar fengist við ritstörf og þýðingar. Hann hefur þýtt fjórtán bækur og er höfundur sex skáldsagna. Tvær bækur eftir Ragnar hafa komið út í Þýskalandi og tvær eru væntanlegar í enskri þýðingu, að því er segir í tilkynningu frá GAMMA.