Jæja, þá liggur það fyrir. Frumvarp Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, ráðherra ferðamála, um náttúrupassann svokallaða verður ekki að lögum á yfirstandandi þingi. Það þýðir að nú mun enn eitt sumarið líða án samhæfðar gjaldtöku af ferðamönnum, til að standa straum af uppbyggingu og varðveislu náttúru Íslands og helstu ferðamannastaða, sem margir liggja nú þegar undir alvarlegum skemmdum.
Það er leitandi að öðru eins frumvarpi á síðustu árum sem jafn mikil andstaða er við, þvert á flokka. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, sagði í sjónvarpsfréttum RÚV í gær, að það væru vonbrigði hversu mikill ágreiningur væri um frumvarpið. Þú segir ekki!
Ragnheiði Elínu er vorkunn, hún er búin að láta Samtök ferðaþjónustunnar, snúa sér í marga hringi í málinu og situr nú uppi með Svarta-Pétur. Handónýtt frumvarp sem nánast engin vill snerta með töngum.
Fyrir utan hvað það var mikið pólitískt harakiri að ætla sér að skattpína Íslendinginn til að borga fyrir að njóta íslenskrar náttúru, þá var frumvarpið svo ólíklegt til að hljóta framgöngu, að bara það eitt að leggja það fram er erfitt að túlka öðruvísi en sem verulegan dómgreindarskort hjá ráðherra ferðamála. Og á meðan bíður náttúran.