Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir að íslenskar dagvöruverslunarkeðjur hafi ekki brugðist hlutverki sínu. Hún telur verslunina í heild hins vegar þurfa að upplýsa neytendur um hvert mismunur á ávinningi af gengislækkunum og lægra innkaupaverði hafi farið. Í nýlegri skýrslu Samkeppniseftirlitsins um dagvörumarkaðinn kom fram að sá ávinningur sem orðið hefur vegna þessa þátta hafi ekki skilað sér til neytenda.
Sérstök umræða um samkeppni á smásölumarkaði fór fram á Alþingi í dag. Upphafsmaður umræðunnar var Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, og tilefnið var ný skýrsla Samkeppniseftirlitsins um dagvörumarkaðinn.
Hagar með um helmings markaðshlutdeild
Í þeirri skýrslu kom meðal annars fram að velta verslanna vegna sölu á dagvöru sé áætluð um 130 milljarðar króna á síðasta ári. Hlutdeild Haga, sem rekur meðal annars verslanir undir merkjum Bónus og Hagkaup, er samkvæmt skýrslunni 48 til 49 prósent.
Í skýrslunni segir enn fremur að mikil samþjöppun hafi orðið á dagvörumarkaði á síðustu áratugum. Hagar hafa verið þar í sérflokki. Markaðshlutdeild félagsins jókst úr 39 prósent árið 2000 og í 55 prósent árið 2009, þegar hún náði hámarki. Þótt markaðshlutdeildin hafi minnkað lítillega undanfarin ár, meðal annars vegna þess að Samkeppniseftirlitið skikkaði félagið til að selja 10-11 verslanirnar út úr samstæðu sinni, þá eru Hagar samt sem áður með nærri helmingsmarkaðshlutdeild á markaðnum. Þrír stærstu smásalarnir á Íslandi, Hagar, Kaupás og Samkaup, eru samtals með 72 prósent markaðshlutdeild á smásölumarkaði.
Verður "spennandi" að sjá hvað gerist með Costco
Þorsteinn spurði Ragnheiði Elínu meðal annars hvort, í ljósi niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins, hún teldi að verslunin í landinu hefði brugðist hlutverki sínu. „Nei, ég tel svo ekki vera“ sagði Ragnheiður Elín. Verslunin þyrfti hins vegar að upplýsa neytendur um hvert mismunurinn á þeim ávinningi sem skapaðist vegna gengislækkunar og hagstæðari innkaupaverða fór fyrst hann skilaði sér ekki í hagstæðara verði fyrir neytendur.
Ragnheiður Elín sagði einnig að skýrsla Samkeppniseftirlitsins sýna að samþjöppun á markaðnum væri að minnka, þótt hún sé enn mikil. Það væri jákvæð þróun.
Hún sagðist ekki vera að íhuga að breyta lögum um markaðsráðandi stöðu fyrirtækja, enda sé löggjöf hérlendis sambærileg og í öðrum viðmiðunarlöndum. Ragnheiður Elín taldi hins vegar að það yrði „spennandi“ að fylgjast með þróun dagvörumarkaðarins ef og þegar stórir erlendir aðilar komi inn á þann markað. Þar á ráðherrann væntanlega við opnun á verslun bandaríska smásölurisans Costco, sem er þriðja stærsta smásölukeðja í heimi í Kauptúni í Garðabæ. Fyrirhugað er að sú verslun opni á fyrri hluta ársins 2016.