Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, leggur til að næst þegar kosið verður til Alþingis, árið 2017, verði eingöngu konur kjörnar á þing. Þingið gæti orðið til tveggja ára og að því loknu væri hægt að sannreyna hvort vinnubrögð kvenna séu öðruvísi en vinnubrögð karla, og þá gætu kjósendur „velt því fyrir sér hvort það væri jafnvel bara skynsamlegra að hafa kvennaþing.“
Ragnheiður varpaði fram þessari hugmynd undir liðnum störf þingsins á Alþingi fyrir skömmu og sagði hugmynd sína mjög róttæka. „Hún er í þá veru hvort það væri möguleiki í kosningunum 2017 að lögbinda að þá sitji eingöngu konur á þingi. Í tvö ár, frá 2017 til 2019, þá yrði kosið til kvennaþings til tveggja ára og konur fái tækifæri til þess að sýna fram á hvort að það sé í raun satt, því sem haldið er fram, að vinnubrögð kvenna séu með öðrum hætti en vinnubrögð karla. Þingið yrði stutt, það yrði tvö ár og að loknu því þingi gæti þjóðin sjálf að sjálfsögðu, og þeir sem að kosningum koma, velt því fyrir sér hvort það væri jafnvel bara skynsamlegra að hafa kvennaþing.“
Hún sagðist hafa setið á þingi frá því í maí 2007 og á þeim tíma hefði lítið sem ekkert breyst í störfum þingsins. Hún vildi því ræða þessa hugmynd sína og aðra hugmynd, sem snýr að því að eitt þing verði sett í það að endurskoða þau lög sem sett hafa verið á Alþingi í gegnum tíðina. Í stað þess að „koma fram með bunka af lögum á hverju þingi og bæta í pokann“ þá yrði skoðað hvernig þau lög sem þegar hafi verið sett virki.