Embætti sérstaks saksóknara hefur lokið rannsókn á meintum umboðssvikum fyrrum stjórnenda og eigenda tryggingafélagsins Sjóvá. Niðurstaðan er að enginn verður ákærður og málið látið niður falla. Ákvörðun þess efnis var tekin skömmu fyrir jól. Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, við Fréttablaðið.
Í lbaðinu er haft eftir Þór Sigfússyni fyrrum forstjóra Sjóvá sem hefur verið með stöðu grunaðs manns í 65 mánuði, að hann hafi búist við þessari niðurstöðu lengi.„Ég hef ekki heyrt í neinum frá embættinu í tæp þrjú ár. Það eina sem ég myndi hvetja til er að það verði horft til þess með lagasetningu að svona geti ekki endurtekið sig, að fólk geti verið á sjötta ár til rannsóknar," sagði Þór.
Sjóvármálið snérist meðal annars um lánveitingar úr bótasjóði Sjóvár og hvort að stjórnendur og eigendur félagsins hefðu farið út fyrir heimildir sínar með þeim lánum. Embætti sérstaks saksóknara gerði meðal annars húsleit hjá Þór Sigfússyni, Karli Wernerssyni, fyrrum stjórnarformanni og aðaleiganda Milestone, og Guðmundi Ólafssyni, fyrrum forstjóra Milestone á árinu 2009. Þeir voru allir yfirheyrðir og fengu stöðu grunaðra á meðan yfirheyrslur stóðu yfir.Auk þess var leitað í höfuðstöðvum Milestone, fyrrum eiganda Sjóvár og í höfuðstöðvum tryggingafélagsins.
Ríkið þurfti að koma að Sjóvá á árinu 2009 og tryggingarekstur félagsins var færður á nýja kennitölu haustið 2009. Hann var síðar seldur til nýrra eigenda. Búist er við því að tap ríkisins af afkomu þess að Sjóvá sé um fjórir milljarðar króna.