Á blaðamannafundi sem haldinn var í Amsterdam í morgun var tilkynnt að drykkjavöruframleiðandinn Refresco-Gerber verður skráð á Euronext hlutabréfamarkaðinn í Hollandi eftir ellefu daga. Stoðir, sem áður hétu FL Group, eiga 32 prósent hlut í félaginu.
Allir hluthafar munu selja helming af því hlutafé sem þeir eiga í Refresco-Gerber við skráninguna og gengið verður 13-16 evrur á hlut. Það þýðir að heildarvirði Refreso-Gerber er metið á 147 til 176 milljarða króna. Þegar Refresco-Gerber verður skráð á markað þá verður gefið út 100 miljón evra nýtt hlutafé og hlutur Stoða þynnist því sem því nemur. Hlutur Stoða er samkvæmt þessu metin á 45 til 50 milljarða króna. Um helmingur þeirrar upphæðar skilar sér til félagsins við skráninguna, sem fer fram 27. mars næstkomandi. Þetta staðfestir Júlíus Þorfinnsson, framkvæmdastjóri Stoða, í samtali við Kjarnann.
Samkvæmt heimildum Kjarnans áform eru síðan uppi um að selja þann eignarhlut sem eftir er á markaði í kjölfar skráningar.
Þrotabú Glitnis er langstærsti eigandi Stoða, með rúmlega 30 prósent hlut. Arion banki á síðan 16 prósent. Á meðal annarra eigenda eru Landsbankinn, og sjóðir í stýringu erlendu stórbankanna J.P. Morgan og Credit Suisse. Jón Sigurðsson, fyrrum forstjóri FL Group, Þorsteinn M. Jónsson, fyrrum stjórnarformaður Glitnis og áður stór hluthafi í FL Group, og Hilmar Þór Kristinsson, fyrrum framkvæmdastjóri Kaupþings, sitja allir í átta manna stjórn Refresco-Gerber fyrir hönd íslenskra eigenda.
Endalok Stoða/FL Group nálgast
Júlíus segir að Refresco-Gerber hluturinn sé eiginlega síðasta eignin sem Stoðir haldi á. „Það má segja að það sé búið að finna út úr nær öllum þeim lögfræðilegu álitaefnum og dómsmálum sem félagið stóð í. Þetta er síðasta eignin sem við höldum á. Við erum búin að greiða upp allar skuldir. Við erum búin að greiða upp allt forgangshlutafé. Við greiddum þriggja milljarða króna arð á síðasta ári. Félagið er komið meira og minna fyrir vind.“
Því eru endalok Stoða, áður FL Group, nærri. Félagið er ein frægasta táknmynd íslensku útrásarinnar. Félagið fór ekki í þrot þrátt fyrir afleita stöðu eftir bankahrunið, en það var meðal annars stærsti einstaki eigandi Glitnis áður en að sá banki féll. Þess í stað var samþykktur nauðasamningur við kröfuhafa árið 2009. Síðan þá hefur verið unnið að því að leysa úr fjölmörgum lögfræðilegum ágreiningsmálum, greiða skuldir félagsins og kröfuhöfum þess það sem eftir er í arð. Með sölunni á hlutnum í Refresco-Gerber er ljóst að þeir geta átt von á tugmilljarða króna arðgreiðslu á næsta ári til viðbótar við þá þrjá milljarða króna sem félagið greiddi til þeirra á síðasta ári.