Starfsmenn ISAL, sem rekur álver Rio Tinto á Íslandi í Straumsvík, fengu allir sent bréf í frá Rannveigu Rist, forstjóra fyrirtækisins, í gær þar sem rekstrarerfiðleikum fyrirtækisins var lýst og afstaða þess í kjaraviðræðum við starfsmenn sett í samhengi við þá stöðu. Í þeim viðræðum hefur ISAL viljað breyta hluta af störfum starfsmanna úr föstum störfum í verktöku og borið fyrir sig samkeppnissjónarmið. Það sé sanngjarnt að fyrirtækið starfi við sömu aðstæður og önnur fyrirtæki á Íslandi og geti boðið út aukinn hluta af starfsemi sinni.
Rekstrarerfiðleikar vegna töðu á mörkuðum og nýrra samninga
Í bréfinu, sem Morgunblaðið greinir frá, segir að afkoma ISAL sé slæm og að á árunum 2012 og 2013 hafi fyrirtækið tapað sjö milljörðum króna. Á síðasta ári hafi verið um 400 milljóna krona hagnaður en að hann samsvari einungis 0,3 prósent ávöxtun eigin fjár. Síðan segir orðrétt: „Staða á mörkuðum er slæm og hefur versnað verulega frá áramótum. Heimsmarkaðsverð á áli hefur lækkað mikið og það á einnig við um markaðsuppbætur, sem eru hluti af verðinu sem við fáum fyrir álið. Eftirspurn er langt undir áætlunum. Samanlögð áhrif þessa á sölutekjur ISAL eru harkaleg. Og þar sem orkuverð ISAL er ekki lengur tengt við álverð þolum við lágt álverð miklu verr en áður.“
Áróður vegna slæmra ákvarðana stjórnenda
Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi RioTinto á Íslandi, segir við Morgunblaðið að bréfið hafi verið sent út til þess að upplýsa starfsmenn um afstöðu fyrirtækisins. Skynsamlegt sé að þeir hafi eins miklar upplýsingar undir höndum og hægt sé.
Gylfi Ingvarsson, talsmaður verkalýðsfélaganna í Straumsvík, er ekki sömu skoðunar. Hann segir við Morgunblaðið að um áróður sé að ræða og að stjórnendur séu að láta slæmar ákvarðanatökur sínar koma niður á starfsmönnum. „ISAL gerði nýjan samning árið 2010 við Landsvirkjun sem átti að vera alveg rosalega góður en leiðir í raun til þess að ISAL er að borga 40% hærra verð en Norðurál og Fjarðaál. Þær tæknibreytingar sem áttu að gerast í þriðja skálanum um 20% framleiðsluaukningu, og áttu að borga framleiðslubreytingar í steypuskála, eru eingöngu 8%. Þetta eru allt ákvarðanatökur stjórnenda og eigenda sem setja fyrirtækið í þá stöðu sem það er í núna. Þeir sjá enga aðra leið en að það eigi að lækka laun hjá 80 starfsmönnum,“ segir Gylfi.