Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að fylgistap Samfylkingarinnar megi að einhverju leyti rekja til svikinna loforða ríkisstjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, í Evrópumálum. Þetta kemur fram í viðtali við Árna Pál í Viðskiptablaðinu í dag.
„En það er hins vegar alveg ljóst á fylgistölunum að það sem mestu skiptir og endurspeglast í fylgi allra flokka er óþol með stjórnmálin og ég hef þá kenningu að stóri áhrifavaldurinn í þessu hafi verið loforð ríkisstjórnarflokkanna um þjóðaratkvæði um aðild að Evrópusambandinu sem er svikið í tvígang, fyrst með tilrauninni til að draga aðildarumsókn til baka í febrúar 2014 og svo aftur með bréfinu í febrúar 2015. Í bæði skiptin verða gríðarlegar fylgissveiflur og í bæði skiptin er mikil fylgisaukning hjá þeim flokkum sem menn telja að standi fyrir eitthvað nýtt, fyrst Bjartri framtíð og í seinna skiptið Pírötum. Ég held einfaldlega að vonbrigði fólks endurspeglist í þessum sveiflum,“ segir hann í viðtali við blaðið, þar sem hann ræðir fylgistap flokksins og stefnu hans.
Fylgi Samfylkingarinnar er afar lágt í dag í sögulegu samhengi og samkvæmt nýjustu könnun MMR um fylgi stjórnmálaflokka er það innan við tíu prósent. Í nýjustu könnun Gallup mælist fylgi Samfylkingarinnar 12,2 prósent. Það mældist um 20 prósent síðasta haust en hefur dalað frá áramótum.
Flokkurinn fékk 12,9 prósent í síðustu kosningum, sem þótti afleit niðurstaða, og tapaði meira fylgi á milli kosninga en nokkur flokkur í sögu landsins hefur gert. Fyrir tæpu ári síðan í ágúst 2014, virtist Samfylkingin vera að ná sér á strik og fylgið mældist í kringum 20,3 prósent.
Síðan þá hefur það verið á hraðri niðurleið og fór í fyrsta sinn undir tíu prósent í könnunum MMR í þeirri sem var birt var í júli, en fylgi Samfylkingar mældist þá 9,3 prósent. Í síðustu könnun MMR mældist fylgið síðan 9,6 prósent. Miðað við það er Samfylkingin næst minnsti flokkur landsins.