Rétthafasamtök á Íslandi hafa náð samkomulagi við helstu fjarskiptafyrirtæki landsins um framkvæmd lögbanns sem hérðasdómur úrskurðaði í fyrra að lagt skyldi á aðgang að vefsíðunum deildu.net og ThePiratebay. Á vefsíðunum gátu notendur sótt sér afþreyingarefni, sem oft var dreift ólöglega.
Rétthafasamtökin sem um ræður eru STEF, SFH, SÍK og FRÍSK. Í tilkynningu frá samtökunum segir að í kjölfar samkomulagsins megi gera ráð fyrir að aðgangi að deildu.net verði lokað, óháð því undir hvaða léni síðan er hýst. „Rétthafasamtökin líta á lögbannsaðgerðir sem illa nauðsyn en telja ófært að ólögmæt starfsemi af þessu tagi viðgangist óheft.“
Árangur umtalsverður
Í tilkynningunni segir að þrátt fyrir að vefsíðan deildu.net hafi strax í kjölfar dómsins skipt um lán, þá sé ljóst að árangurinn af lögbanninu hafi verið umtalsverður. Í kjölfar dómsins hafi umferð frá íslandi um vefsíðuna ThePiratebay minnkað verulega. Síðan er ein sú stærsta sinnar tegundar í heiminum.
„Auk þess sem nú þegar eru í boði nokkrar löglegar tónlistarveitur hér á landi, gera allar helstu sjónvarpsstöðvarnar notendum nú kleift að sækja dagskrárefni á þeim tíma og stað sem hver og einn kýs, hvort heldur sem það er í gegnum sjónvarpið eða á sérstökum „öppum“ fyrir spjaldtölvur og síma. Hefur notkun á slíkri þjónustu aukist mjög mikið, eða um tæp 300% frá árinu 2011, þegar þjónustan var fyrst tekin upp. Jafnframt hefur notendum staðið til boða um nokkurra ára skeið VOD þjónusta þar sem hægt er að leigja myndir og þætti heim í stofu. Aukning á þessari þjónustu hefur verið um 200% síðan 2008.
Ennfremur hafa svokallaðar “SVoD” (Subscription Video on Demand) þjónustur í anda Netflix sprottið upp á Íslandi og nú er svo komið að hægt er að velja úr nokkrum slíkum sem hver og ein býður upp á áskrift af þúsundum klukkustunda af efni. Loks má geta þess að hægt er að kaupa eða leigja kvikmyndir og sjónvarpsefni í gegnum netið löglega. Rétt er að taka fram að það efni sem boðið er af íslenskum fyrirtækjum sem starfa á þessum markaði er sniðið fyrir íslenskan markað og kemur því talsett eða textað og er aldursmerkt til að vernda þá sem yngri eru,“ segja samtökin. Bent er á vefsíðuna tonlistogmyndir.is þar sem finna má lista yfir löglegar leiðir á Íslandi til að sækja og horfa á afþreyfingarefni.
„Skref til viðbótar í baráttunni“
Haft er eftir Guðrúnu Björk Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra STEFs, að með samkomulaginu við fjarskiptafyrirtæki sé stigið eitt skref til viðbótar í baráttunni gegn ólöglegri dreifingu afþreyingarefnis. „Við höfum í gegnum árin fengið málefnalega gagnrýni þar sem bent hefur verið á skort á aðgengi að löglegu afþreyingarefni á netinu. Mjög margt hefur þó breyst til batnaðar undanfarið að þessu leyti. Þannig hafa Íslendingar í auknum mæli nýtt sér þjónustu löglegra tónlistarveitna.“
Að lokum segir í tilkynningunni að rétthafasamtökin líti á aðgerðirnar sem illa nauðsyn. „Rétthafasamtökin líta á lögbannsaðgerðir sem illa nauðsyn en telja ófært að ólögmæt starfsemi af þessu tagi viðgangist óheft. Samtökin hafa það að sínu markmiði að upplýsa almenning um eðli þessara brota og spyrna gegn þeim innan ramma laganna. Þannig megi ná fram hugarfarsbreytingu notenda og auka skilningur á því að um dreifingu og sölu kvikmynda og tónlistarefnis á netinu eigi að gilda sömu lögmál og almennt gilda um viðskipti af þessu tagi í raunheimum. Þegar því takmarki er náð verður kominn grundvöllur til eðlilegra og sanngjarnra viðskipta með slíkt efni sem mun skila sér til höfunda, listamanna og framleiðenda og stuðla að því að þessar listgreinar fái þrifist öllum til ánægju og hagsbóta.“