Réttarhöldin í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþingis eru stórmerkileg og margt nýtt hefur komið fram í þeim, um hvernig staðið var að viðskiptum innan Kaupþings. Alls eru níu ákærðir í málinu, þar af eru allir helstu stjórnendur Kaupþings; Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri í Lúxemborg, Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi, Bjarki Díego, fyrrverandi framkvæmdastjóri útlána, og Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður.
Fyrir dóminn í gær kom Egill Ágústsson, forstjóri Íslensk/Ameríska og mikill reynslubolti úr íslensku atvinnulífi. Hann fullyrti frammi fyrir fjölskipuðum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, að hann hefði ekki vitað að félag sem var í hans eigu, Desulo Trading, hefði tekið milljarða að láni hjá Kaupþingi í Lúxemborg til þess að kaupa eigin bréf Kaupþings, með þau ein að veði. Þetta verður að teljast með ólíkindum, og vekur upp spurningar um hvað gekk eiginlega á innan þessa stærsta fyrirtækis Íslandssögunnar, og einnig stærsta gjaldþrots Íslandssögunnar.
Hvernig má það vera, að lánaðir hafi verið tugir milljarða til félags sem lagði ekki fram neitt eigið fé, til þess að kaupa bréf í bankanum sjálfum með þau ein að veði, án vitneskju þess sem átti félagið? Þetta er reyfarakennt, og hljómar eins og eitthvað sem samræmist alls ekki lögum, enda telur saksóknari svo ekki vera. En dómarar eiga eftir að kveða upp sinn dóm í málinu, þar sem nóg er eftir enn af þessari umfangsmiklu aðalmeðferð.