Samkvæmt svartri skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins KPMG, um fjárhagsstöðu og framtíðarhorfur bæjarsjóðs og samstæðu Reykjanesbæjar, er sveitarfélagið orðið skuldugasta sveitarfélag landsins. Fram til þessa hefur Sandgerðisbær setið í toppsæti lista yfir skuldugustu sveitarfélaga landsins, en í árslok 2013 skuldaði Sandgerðisbær rúm 227 prósent af árlegum tekjum sveitarfélagsins. Samkvæmt nýlegri úttekt greiningardeildar Arion banka á skuldastöðu sveitarfélaganna voru þrjú skuldsettustu sveitarfélögin Fljótsdalshérað, Reykjanesbær og Sandgerðisbær, með skuldir yfir 200 prósent af árstekjum. Samkvæmt heimildum Kjarnans nemur hlutfall skulda Reykjanesbæjar á móti tekjum um 240 til 250 prósentum.
Heimildir herma að bæjarsjóð Reykjanesbæjar skorti um fimmtán milljarða króna til að geta staðið við lögbundnar skuldbindingar sínar um að koma skuldum niður fyrir 150 prósent af árlegum tekjum sveitarfélagsins.
Skýrsla KPMG um alvarlega fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar hefur enn ekki verið gerð opinber, en niðurstöður hennar verða kynntar á opnum íbúafundi í Stapa í kvöld. Skýrslan var lögð fram á síðasta bæjarráðsfundi sveitarfélagsins, en samkvæmt heimildum Kjarnans voru niðurstöður hennar meðal annars kynntar á fundi Samfylkingarinnar á laugardaginn. Heimildir herma að bæjarsjóð Reykjanesbæjar skorti um fimmtán milljarða króna til að geta staðið við lögbundnar skuldbindingar sínar um að koma skuldum niður fyrir 150 prósent af árlegum tekjum sveitarfélagsins.
KPMG tók "punktstöðu" á fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar
Samkvæmt heimildum Kjarnans tekur skýrsla KPMG mið af fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar í dag, óháð fyrirhuguðum atvinnuverkefnum í sveitarfélaginu. KPMG mat sem sagt fjármál sveitarfélagsins óháð því hvað verða vill.
Miðað við skuldastöðu Reykjanesbæjar mun sveitarfélagið að óbreyttu ekki geta snúið við fjárhagsstöðu sinni fyrir árið 2022, sem eru tímamörkin sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga gaf skuldsettustu sveitarfélögum landsins, til að ná skuldum sínum niður fyrir 150 prósent af árlegum tekjum.
Á áðurnefndum íbúafundi í kvöld, þar sem skýrsla KPMG verður kynnt, verður sömuleiðis kynnt sérstök aðgerðaráætlun sem Reykjanesbær hyggst ráðast í í samræmi við tillögur skýrsluhöfunda. Áætlunin hefur hlotið nafnið "Sóknin."
Blóðugur niðurskurður og sjö milljarða skuldir Helguvíkurhafnar
Samkvæmt heimildum Kjarnans hyggst Reykjanesbær hækka álögur til að auka skatttekjur sveitarfélagsins, draga úr rekstrarkostnaði, selja frekari eignir sveitarfélagsins, og endursemja við lánadrottna sína til að bregðast við alvarlegri stöðu bæjarsjóðs Reykjanesbæjar. Til að bregðast við brýnasta vandanum er til athugunar hjá Reykjanesbæ að skera niður fjárframlög til umhverfis- og skipulagsmála, æsku- og íþróttastarfs og félagsþjónustunnar, og þá verða fjárframlög til fjárhagsaðstoðar atvinnulausra og málefna fatlaðra endurskoðuðu, enda vega kostnaðarliðirnir þungt á sveitarfélaginu. Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að Reykjanesbær muni sömuleiðis fara fram á hærri arðgreiðslur frá HS Veitum vegna skuldastöðu sveitarfélagsins. Þá hyggst sveitarfélagið skera niður yfirvinnu og endurskoða kostnaðarliði eins og bílastyrki til starfsfólks.
Heimildir Kjarnans herma að skuldir Helguvíkurhafnar vegi þyngst í fjármálum Reykjanesbæjar, en skuldir hafnarinnar nema sjö milljörðum króna.
Heimildir Kjarnans herma að skuldir Helguvíkurhafnar vegi þyngst í fjármálum Reykjanesbæjar, en skuldir hafnarinnar nema sjö milljörðum króna. Tafir á uppbyggingu hafnsækinnar atvinnustarfsemi hefur sett strik sitt í reikninginn hjá Reykjanesbæ, því á meðan lítið hefur gerst hefur fjármagnskostnaður hafnarinnar hlaðist upp. Rekstur hafnarinnar er mjög slæmur, og skilar sveitarfélaginu litlu.
Þess ber þó að geta að töluverð atvinnuuppbygging hefur átt sér stað í sveitarfélaginu á undanförnum misserum. Fjögur gagnaver eru komin í gagnið í Reykjanesbæ, tvö kísilver eru í uppbyggingu í Helguvík, tvö líftæknifyrirtæki eru í pípunum og alþjóðaflugvöllurinn á Miðnesheiði skilar sínu, en fjölmörg flugþjónustufyrirtæki eru starfrækt í sveitarfélaginu. Þá er sveitarfélagið orðið ansi langeygt eftir að álver Norðuráls í Helguvík komist loksins á koppinn. Líkt og Kjarninn hefur greint frá virðast hins vegar litlar líkur á að af byggingu álversins verði.