Sveitarfélagið Norðurþing á nú í viðræðum við Eignarhaldsfélagið Fasteign um að kaupa til baka eignir sveitarfélagsins út úr eignarhaldsfélaginu. Samkvæmt heimildum Kjarnans eru samningaviðræður langt komnar, og von er á því að kaupsamningar verði undirritaðir á næstunni.
Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykkti á fundi sínum þann 3. desember síðastliðinn að nýta sér kaupréttarákvæði í leigusamningi sínum við Fasteign hf. og keypti til baka fasteignir sem áður voru í eigu sveitarfélagsins í lok desember. Um er að ræða sex deilda leikskólahúsnæði við Skógarlönd á Egilsstöðum og gervigrasvöll ásamt þjónusturými í Fellabæ. Fjárhæð leiguskuldbindinga Fljótsdalshéraðs gagnvart Fasteign ehf. nam 697 milljónum króna samkvæmt ársreikningi sveitarfélagsins fyrir árið 2013. Arion banki fjármagnaði kaup sveitarfélagsins.
Með brotthvarfi Fljótsdalshéraðs og yfirvofandi brotthvarfi Norðurþings út úr Eignarhaldsfélaginu Fasteign, verður Reykjanesbær eina sveitarfélagið eftir í félaginu.
Leiguskuldbindingar upp á 13,7 milljarða króna
Samkvæmt úttekt Haralds L. Haraldssonar hagfræðings á rekstri og fjármálum Reykjanesbæjar frá því í ágúst, nema leiguskuldbindingar sveitarfélagsins 13,7 milljörðum króna. Leiguskuldbindingarnar nema um 34 prósentum af heildar skuldum og skuldbindingum sveitarfélagsins, en flestar húseignir Reykjanesbæjar eru leigðar af Fasteign ehf. Til samanburðar eru langtímaskuldbindingar Reykjanesbæjar við lánastofnanir 41 prósent af skuldum sveitarfélagsins. Í úttektinni er lagt til að kannaður verði möguleikinn á að greiða upp leiguskuldbindingarnar, eða fá þær lækkaðar.
Árið 2002 sameinuðust nokkur sveitarfélög um að stofna sérstakt eignarhaldsfélag sem þau myndu selja fasteignirnar sínar inn í, sem félagið myndi síðan sérhæfa sig í að reka og annast uppbyggingu nýrra fasteigna fyrir sveitarfélögin. Eignarhaldsfélagið Fasteign hf var svo stofnað árið 2003.
Félagið hefur verið umdeilt frá stofnun, en það lenti í töluverðum fjárhagsvandræðum í kjölfar bankahrunsins meðal annars vegna erfiðrar stöðu Álftaness og lána í erlendri mynt. Fjárhagslegri endurskipulagninu félagsins lauk í árslok 2012, en þá voru eigendur og leigutakar félagsins níu sveitarfélög ásamt Arion banka. Sveitarfélögin sem um ræðir voru Fjarðarbyggð, Fljótsdalshérað, Grímsnes- og Grafningshreppur, Norðurþing, Reykjanesbær, Sandgerði, Vestmannaeyjar, Vogar og Ölfus.
Í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar Fasteignar voru gerðir nýir leigusamningar við sveitarfélögin þar sem leigugreiðslurnar voru lækkaðar umtalsvert auk þess sem viðhald fasteignanna færðist yfir á hendur sveitarfélaganna. Þá gafst sveitarfélögunum sömuleiðis kostur á að kaupa fasteignir sínar til baka, sem þau hafa nú flest gert eins og áður segir.
Útganga sveitarfélagsins Norðurþings út úr félaginu er yfirvofandi eins og framan greinir, en samkvæmt heimildum Kjarnans hafa engar viðræður átt sér stað á milli fulltrúa Reykjanesbæjar og Fasteignar ehf. um möguleg endurkaup sveitarfélagsins á eignum sínum út úr eignarhaldsfélaginu. Eins og áður segir, verður Reykjanesbær eitt sveitarfélaga eftir í Fasteign þegar Norðurþing gengur úr félaginu á næstu misserum.