Reykjaneshöfn hefur fengið greiðslufrest til og með 30. nóvember næstkomandi vegna greiðslu sem hún átti að inna af hendi í dag, 15. október, en gat ekki. Því kemur ekki til greiðslufalls hafnarinnar eða Reykjanesbæjar, sem er í ábyrgðum fyrir skuldum hennar en hefur ekki fjárhagslega burði til að greiða þær.
Í tilkynningu sem barst til Kauphallar Íslands vegna þessa í dag segir að allir þekktir kröfuhafar hafi fallist á greiðslufrestinn. "Í framhaldinu verður enn fremur skipað kröfuhafaráð sem mun koma að viðræðum um fjárhagslega endurskipulagningu fjármála Reykjaneshafnar."
Skuldsettasta sveitarfélag landsins í miklum vanda
Kjarninn greindi frá því 3. október að Reykjaneshöfn hefði formlega óskað eftir fjármagni frá Reykjanesbæ til að geta staðið við greiðslur lána sem eru á gjalddaga 15. október næstkomandi. Á meðal þess sem höfnin þarf að greiða af eru tveir skuldabréfaflokkar. Þetta kom fram í tilkynningu til Kauphallar, en umrædd skuldabréf eru skráð þar. Í tilkynningunni sagði einnig: „Vegna yfirstandandi vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu Reykjanesbæjar er óvissa um möguleika Reykjanesbæjar til að fjármagna greiðslurnar. Því getur komið til greiðslufalls á skuldbindingum Reykjaneshafnar.“
Reykjanesbær hafnaði beiðni Reykjaneshafnar þann 8. október. Ákvörðun um það var tekin á fundi bæjarráðs þann sama dag. Í kjölfarið óskaði hafnarstjórn Reykjaneshafnar eftir greiðslufresti og kyrrstöðutímabili frá kröfuhöfum sínum til 30. nóvember næstkomandi. Það hefur nú verið samþykkt.
Reykjanesbær þarf verulega niðurfellingu skulda
Reykjanesbær á hefur ekki fjárhagslega getu til að hlaupa undir bagga með Reykjaneshöfn, en sveitarfélagið er í ábyrgð fyrir skuldum hafnarinnar. Það er sem stendur í viðræðum við helstu kröfuhafa sína um fjárhagslega endurskipulagningu. Eigi þær viðræður að skila árangir er „nauðsynlegt að samkomulag náist við helstu kröfuhafa um verulega niðurfellingu skulda“. Þetta kemur fram í tilkynningu sem sveitarfélagið hefur sendi nýverið til Kauphallar Íslands.
Þar segir einnig: „Náist ekki samningar við kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu bæjarfélagsins og stofnana þess verður samkvæmt sveitastjórnarlögum óskað eftir því að bæjarfélaginu verði skipuð fjárhagsstjórn.“
Skuldsettasta sveitafélag landsins
Reykjanesbær, er skuldsettasta sveitarfélag landsins. Skuldir þess voru tæplega 41 milljarður króna í lok árs 2014. Skuldirnar eru rúmlega 250 prósent af reglulegum tekjum sveitarfélagsins en samkvæmt sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi árið 2012 þá er leyfilegt skuldahlutfall að hámarki 150 prósent. Skuldastaða Reykjanesbæjar er því beinleiðis í andstöðu við lög og getur illa séð af fé til að borga skuldir Reykjaneshafnar, sem skuldar rúma sjö milljarða króna, aðallega vegna uppbyggingu Helguvíkurhafnar. Tekjur á móti þeim skuldum sem stofnað var til eru litlar en reiknað var með að þær myndu að mestu leyti koma frá stóriðju sem átti að byggjast upp á svæðinu og nýta þjónustu hafnarinnar. Þau stóriðjuáform hafa enn sem komið er ekki orðið að veruleika.
Samkvæmt útkomuspá Reykjanesbæjar fyrir árið 2015 verður samandregin rekstrarniðurstaða neikvæð um 716 milljónir króna á árinu, sem er um 300 milljónum krónum verra en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Thorsil gat ekki greitt umsamin gjöld
Í DV í vikunni var greint frá því að Reykjaneshöfn hefði gefið Thorsil, sem ætlar sér að byggja kísilmálmverksmiðju í Helguvík, greiðslufrest á gatnagerðargjöldum vegna lóðarinnar undir verksmiðjuna. Gjöldin áttu að greiðast 30. september síðastliðinn en gjalddaganum var frestað til 15. desember. Hákon Björnsson, framkvæmdastjóri Thorsil, vildi ekki upplýsa um hversu háa upphæð er um að ræða. Ljóst er að litlar tekjur Reykjaneshafnar, sem hún þarf til að geta staðið við greiðslur af lánum, aukast ekki á meðan að stærsti viðskiptavinur hennar greiðir ekki umsamin gjöld á réttum tíma.
Bygging verksmiðju Thorsil er mjög umdeild í Reykjanesbæ og í ágúst samþykkti bæjarráð sveitarfélagsins að efna til íbúakosningu í nóvember vegna hennar. Samhliða var hins vegar samþykkt að íbúakosningin yrði bindandi og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, hefur sagt að niðurstaða hennar skipti í raun engu máli.