Reykjavíkurborg auglýsir langmest hjá 365 prentmiðlum, en undir það heyra að minnsta kosti Fréttablaðið og fréttavefurinn Vísir. Hún keypti samtals birtingar á auglýsingum fyrir 110,2 milljónir króna á árinu 2013. Þar af runnu 19,5 milljónir króna, um 17 prósent allra keyptra birtinga, til 365-prentmiðla. Á fyrstu átta mánuðum ársins 2014 hefur hlutdeild 365-prentmiðla aukist. Samtals hefur Reykjavíkurborg keypt auglýsingar af miðlunum fyrir 18,7 milljónir króna. Þeir hafa því fengið beint um 21 prósent þeirra 90 milljóna króna sem höfuðborg landsins eyðir í birtingar auglýsinga. Þetta kemur fram í svar fjármálastjórna borgarinnar, Birgis Björns Sigurjónssonar, við fyrirspurn borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um auglýsingakostnað Reykjavíkurborgar.
Til viðbótar keypti borgin birtingar í gegnum birtingarhús og auglýsingastofur fyrir umtalsvert fé. Hlutverk birtingarhúsa er að kaupa birtingar í hinum ýmsu miðlum fyrir viðskiptavini sína. Hluti þeirra birtinga ratar einnig til 365- prentmiðla. Það hlutfall auglýsingatekna sem rennur frá Reykjavíkurborg til 365-prentmiðla er því nær örugglega hærra en ofangreindar tölur gefa til kynna.
Auglýsingakostnaður
[visualizer id="8840"]
Ríkisútvarpið missir hlutdeild
Í fyrra greiddi borgin Ríkisútvarpinu næst mest fyrir birtingar á auglýsingum, eða 8,5 milljónir króna. Það þýðir að Ríkisrekni fjölmiðillinn fékk 7,7 prósent þeirra peninga sem stærsta sveitarfélag landsins eyddi í birtingar á auglýsingum í fyrra. Í ár hefur orðið breyting á og Reykjavík eytt mun minna í birtingar á auglýsingum hjá Ríkisútvarpinu, eða 3,9 milljónum króna. Hlutdeild þess af heildareyðslu borgarinnar hefur því dottið niður í 4,3 prósent.
Árvakur, sem gefur út Morgunblaðið og heldur úti stærsta fréttavef landsins mbl.is, virðist með nokkuð stöðuga áskrift af auglýsingatekjum frá borginni. Á árinu 2013 fékk útgáfufélagið 5,5 milljónir króna þaðan (um fimm prósent af heildareyðslu), og á fyrstu átta mánuðum ársins 2014 hafði það fengið um 4,7 milljónir króna frá henni (rúmlega fimm prósent af heildareyðslu).