Það er rétt og skylt að ræða heiðarlega og öfgalaust um hversu hratt ríki eigi að taka á móti erlendum ríkisborgurunum og hvaða skilyrði þeir eigi að þurfa að uppfylla. Þetta kemur fram í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag. Þar segir einnig: „Öfgarnar felst í því að reyna að útiloka slíka umræðu. Umræðubannið var megineinkenni stjórnmálastefnu sem fáir vilja aðhyllast nú“. Sú stjórnmálastefna sem þar er vísað til er nasismi sem fjallað er um í fyrri hluta bréfsins.
Davíð Oddsson, annar ritstjóri Morgunblaðsins.
Reykjavíkurbréfið er skrifað af öðrum hvorum ritstjóra Morgunblaðsins, þeim Davíð Oddssyni eða Haraldi Johanessen, en birtist nafnlaust. Bréfið í dag fjallar um sögulega kynþáttahyggju og kynþáttarhatur og síðan vikið að umræðunni eins og hún er í nútímanum. Þar segir að nú þurfi „lítið til að hreytt sé „rasisti“ í menn þegar fyrirferðarmestu kjánarnir telja sig hafa fengið síðustu töluna í bingóinu sjái þeir orðið múlatti notað eftir merkingu sinni“.
Þar segir að nú þurfi „lítið til að hreytt sé „rasisti“ í menn þegar fyrirferðarmestu kjánarnir telja sig hafa fengið síðustu töluna í bingóinu sjái þeir orðið múlatti notað eftir merkingu sinni“.
Þarna er verið að vísa í gagnrýni sem kom fram á Reykjavíkurbréf sem birtist í Morgunblaðinu í júlí í sumar þar sem höfundur þess kallaði Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, vera „blökkumaður (múlatti raunar)“. Orðanotkunin vakti mikla athygli og sætti harðri gagnrýni.
Kjánaleg hróp um rasisma
Umræða um innflytjendamál og mögulega útlendingaandúð í íslenskum stjórnmálum hefur verið uppi í tengslum við ummæli sem féllu hjá frambjóðanda Framsóknarflokksins í aðdraganda síðustu sveitastjórnarkosninga, sem virtust hafa skilað henni miklu fylgi. Ákveðinn hluti manna í Sjálfstæðisflokknum hafa á undanförnum misserum velt upp sterkri afstöðu í innflytjendamálum sem mögulegri stjórnmálaskoðun sem flokkurinn ætti að skoða alvarlega að taka upp. Skrif þess efnis hafa til að mynda áður birtst í ritstjórnarskrifum Morgunblaðsins.
Í Reykjavíkurbréfinu í dag segir að það sé jafnfráleitt að forðast óþægilega þjóðfélagsumræðu á borð við innflytjendamál með aðkasti og hrópum og reyna að þagga hana niður með vísun til eigin fordóma og hefja rasistastimpil á loft. „Umræðan um samskipti Ísraela og nágranna þeirra á svo sannarlega rétt á sér. Með sama hætti og rétt er og skylt að ræða heiðarlega og öfgalaust hversu hratt ríki, stórt eða smátt, ætlar að taka á móti erlendum ríkisborgurum og þá með hvaða skilyrðum. Öfgarnar felast í því að reyna að útiloka slíka umræðu. Umræðubannið var megineinkenni stjórnmálastefnu sem fáir vilja aðhyllast nú“.
Bréfritarinn segir að „kjánaleg hróp manna um rasisma án þess að ljóst sé hvað réttlætir meiðyrðin eru ekki til nokkurs gagns. Yfirborðs-kjag af því tagi og ógrundaðar ályktanir hafa þó ekki langtímaáhrif. Allt er sett í einn graut. Fæst stenst nokkra skoðun“.