Ríkið sleit samningaviðræðum við BHM um nýjan kjarasamning um sexleytið í kvöld. RÚV greinir frá þessu. Fyrr í dag hafnaði samninganefnd BHM tilboði frá ríkinu og lagði síðan fram móttilboð. Samninganefnd ríkisins hafnaði því tilboði og sleit viðræðum um klukkan sex.
Erna Guðmundsdóttir, lögmaður BHM, segir við RÚV að ríkið hafi viljað bjóða BHM það sama og samið hafi verið um á almennum markaði. Það hefði þýtt fjögurra til sex prósenta hækkun á ársgrundvelli og að auki hefði samningurinn átt að gilda til ársins 2019. Þetta hafi verið óásættanlegt. „Við erum mjög ábyrg en við erum líka að sækjast eftir því að menntun verði metin til launa.“
Hálftíma áður en ríkið sleit viðræðum við BHM hafði Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga slitið sínum kjaraviðræðum við ríkið.
„Það var ljóst á fundinum í dag að það er lítill vilji hjá ríkinu til þess að semja við hjúkrunarfræðinga. Hvorki virðist vera vilji til þess að leiðrétta laun þeirra og gera þau sambærileg við laun annarra háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna né að leiðrétta kynbundinn launamun,“ segir í fréttatilkynningu frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Hjúkrunarfræðingar hófu ótímabundið verkfall fyrr í vikunni og ljóst er að það heldur áfram. Félag hjúkrunarfræðinga segir ómögulegt að segja til um hvenær næsti samningafundur verði boðaður