Íslenska ríkið, eða Eignasafn Seðlabanka Íslands, mun eignast stóra hluti í fyrirtækjum á borð við Sjóvá, Lýsingu og Lyfju ef slitabú föllnu bankanna ná að ljúka nauðasamningum í samræmi við þau stöðugleikaskilyrði sem stærstu kröfuhafar þeirra hafa samþykkt að fallast á. Auk þess myndi slitabú Glitnis þurfa að afhenda íslenska ríkinu yfir sex prósent hlut í fasteignafélaginu Reitum. Verðmæti þessara eignarhluta hleypur á tugum milljarða króna. Þetta kemur fram í DV í dag.
Stærstu eignirnar koma frá slitabúi Glitnis. Samkvæmt árshlutareikningi þess nam bókfært virði krónueigna búsins í hlutabréfum og eiginfjárgerningum tæplega 29 milljarðar króna. Hjá Kaupþingi og gamla Landsbankanum eru slíkar eignir lægra metnar.
Glitnir á, í gegnum, í gegnum dótturfélagið SAT eignarhaldsfélag, 13,67 prósent hlut í Sjóvá. Miðað við gengi bréfa í tryggingafélaginu nú er markaðsvirði þess hlutar um 2,2 milljarðar króna. Glitnir á einnig 6,25 prósent hlut í fasteignafélaginu Reitum, sem er skráð í Kauphöllina líkt og Sjóvá, og er markaðsverðmæti hlutarins um þrír milljarðar króna. Eign Glitnis í Reitum er að hluta til í eigu Haf-Funding, írsks skúffufélags í eigu Glitnis, sem hefur haldið utan um ýmsar eignir í eigu slitabúsins.
Haf-Funding á einnig 85 prósent hlut í Lyfju en slitabú Glitnis heldur sjálft beint á 15 prósent hlut. Íslenska ríkið, eða Eignasafn Seðlabanka Íslands, munu því eignast Lyfju að öllu leyti
Sama félag á jafnframt 85 prósent hlut í fyrirtækinu Lyfju á meðan Glitnir fer með 15 prósent eignarhlut. Ríkið mun því eignast 100 prósent hlut í Lyfju í kjölfar þess að slitabúið mun uppfylla stöðugleikaskilyrði stjórnvalda. Í DV er gróflega áætlað að virði Lyfju sé á bilinu 3,5 til fjórir milljarðar króna.
Þá er sagt að útlit sé fyrir að ríkið eða Eignasafn Seðlabanka Íslands muni eignast umtalsverðan hlut í Klakka, sem áður hét Exista. Bæði slitabú Glitnis og Kaupþings eiga stóra hluti í félaginu. Langstærsta eigna Klakka í dag er fjármögnungarfyrirtækið Lýsing.