Íslenska ríkið gæti fengið tugi milljarða til viðbótar úr Landsbankanum verði hlutafé bankans fært niður, en bankaráð bankans hyggst leggja tillögu fyrir aðalfund bankans 18. mars næstkomandi, um að bankinn fái heimild til að kaupa allt að 10 prósent af hlutafé bankans og færa niður hlutaféð í kjölfarið. Verði slíkt gert, getur það fært ríkinu tugi milljarða til viðbótar við það sem það hefur þegar fengið í gegnum arðgreiðslur. „Tillagan gerir ráð fyrir að heimildin verði til staðar, en aðgerðir ráðast alltaf af ytri aðstæðum á hverjum tíma,“ sagði Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs Landsbankans í samtali við Kjarnann, í dag, en Bloomberg greindi frá málinu í umfjöllun sinni í dag.
Í lok árs í fyrra var eigið Landsbankans 250 milljarðar króna, og eiginfjárhlutfallið nærri 30 prósent, en það telst hátt í alþjóðlegum samanburði. Íslenska ríkið á tæplega 98 prósent hlut í Landsbankanum, bankinn sjálfur á 1,3 prósent og um 1.400 núverandi og fyrrverandi starfsmenn bankans eiga 0,8 prósent hlut.
Bankaráðið hefur lagt fyrir aðalfundinn til samþykktar tillögur um að greiddur verði arður upp á 24 milljarða króna vegna rekstrarársins í fyrra. Þar af fær ríkið 23,5 milljarða króna. Um 20 milljarðar voru greiddir til ríkisins vegna ársins 2013.
Samkvæmt heimildum Kjarnans hafa tillögur um að ríkið fá meira fé frá Landsbankanum, með fyrrnefndum aðgerðum, verið ræddar innan fjármálaráðuneytisins og á vettvangi ríkisstjórnarinnar, en eiginfjárstaða Landsbankans hefur styrkst jafnt og þétt eftir hrunið, eftir að bankinn var reistur á grunni innlendra eigna hins fallna Landsbanka, sem nú er í slitameðferð.