Íslenskir stjórnmálaflokkar fá 286 milljónir króna samtals greiddar úr ríkissjóði á þessu ári. Stjórnarflokkarnir tveir fá langmest, samtals rúmlega 155 milljónir króna. Þar af fær Sjálfstæðisflokkurinn tæplega 81 milljón króna og Framsóknarflokkurinn rúmlega 74 milljónir.
Framlögin skiptast hlutfallslega milli flokka eftir atkvæðamagni í síðustu alþingiskosningum, en greiðslur til stjórnmálasamtaka eru teknar í fjárlögum hverju sinni. Allir flokkar sem ná einum manni inn á þing eða fá 2,5 prósent atkvæða að lágmarki eiga rétt til framlaga. Það þýðir að tveir flokkar fá framlög úr ríkissjóði án þess þó að vera með fulltrúa á þingi, og þau framlög nema tæpum tuttugu milljónum króna.
Flokkur heimilanna hlaut 3,2 prósent atkvæða í síðustu þingkosningum og fær rúmlega níu milljónir króna á þessu ári. Dögun fékk 3,3 prósent atkvæða og fær 9,4 milljónir króna fyrir árið.
Samfylkingin fær tæplega 39 milljónir, VG tæplega 33 og Björt framtíð rétt um 25 milljónir. Píratar fá 15,5 milljónir í sinn hlut.