Greiningardeild ríkislögreglustjóra metur hættuna á hryðjuverkum eða á öðrum stórfelldum árásum hérlendis í meðallagi. Það þýðir að "almennt er talið að ekki sé hægt að útiloka hættu á hryðjuverkum vegna ástands innanlands eða í heimsmálum". Þetta kemur fram í nýju mati sem embætti ríkilsögreglustjóra hefur sent frá sér og er dagsett 20. febrúar 2015.
Í matinu segir að hérlendis sé til staðar geta til að framkvæma árásir með vopnum sem séu aðgengileg almenningi, að slikar árásir geti bæði verið tilfallandi eða skipulagðar og að áróður eins og til dæmis málflutningur liðsmanna í Ríki Íslams (ISIS) geti "fengið einstaklinga hér á landi til að fremja voðaverk".
Greiningardeildin segir ekki búa yfir upplýsingum um að í undirbúningi séu hryðjuverk "gegn Íslandi eða íslenskum hagsmunum". Takmarkaðar rannsóknarheimildir geri það hins vegar að verkum að upplýsingar skorti til að leggja mat á mögulega ógn. Það skapi óvissu og fái lögreglan ekki "upplýsingar getur það leitt til þess að ekki er hægt að bregðast við og koma í veg fyrir voðaverk. Af þessu leiðir að skortur á upplýsingum er veikleiki sem fallinn er til að auka áhættu."
Til að taka á þessari stöðu er það meðal annars tillaga ríkislögreglustjóra að rannsóknarheimildir lögreglu verði auknar, að hugað verði að lagasetningu sem banni ferðalög til þátttöku sem erlendir bardagamenn í hryðjuverkastarfsemi og að Ísland taki mið af þeim viðbúnaði sem tíðkast við hryðjuverkum á öðrum Norðurlöndum og í Evrópusambandinu.
Niðurstaða ógnarmats greiningardeildar vegna hryðjuverka:
- Á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir liggja og með þeim fyrirvörum sem greint er frá í skýrslunni er niðurstaða greiningardeildar ríkislögreglustjóra að hættustig á Íslandi er metið í meðallagi. Hættustig í meðallagi er skilgreint svo: Almennt er talið að ekki sé hægt að útiloka hættu á hryðjuverkum vegna ástands innanlands eða í heimsmálum.
- Vesturlöndum stafar almenn og vaxandi ógn af starfsemi hryðjuverkasamtaka og hættulegra einstaklinga.
- Óvissa um hryðjuverkaógn fer vaxandi á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum ekki síst vegna möguleika hryðjuverkasamtaka að koma á framfæri áróðursboðskap á internetinu og samfélagsmiðlum í því skyni að hvetja til hryðjuverka.
- Alvarleg og vaxandi ógn á Norðurlöndunum skapar aukna óvissu í ógnarmyndinni hér á landi.
- Greiningardeild býr yfir upplýsingum um að Ísland hafi verið notað sem „gegnumstreymisland“ manna frá Norður-Ameríku á leið til og frá þátttöku í bardögum í Mið-Austurlöndum í nafni Ríkis íslams.
- Samdóma mat öryggisstofnana á Vesturlöndum er að raunveruleg hætta sé á að fólk sem heillast af málflutningi liðsmanna á borð við Ríki íslams, oftar en ekki um internetið, reynist reiðubúið að fremja ódæðisverk í nafni samtakanna þó svo að viðkomandi hafi ekki tekið þátt í bardögum undir fána Ríkis íslams í Mið-Austurlöndum. Það er mat greiningardeildar að slíkur áróður geti fengið einstaklinga hér á landi til að fremja voðaverk.
- Hér er til staðar geta til að framkvæma árásir með vopnum sem eru aðgengileg almenningi. Slíkar árásir geta bæði verið tilfallandi eða skipulagðar með stuttum fyrirvara. Lögregla á Íslandi býr yfir upplýsingum um einstaklinga sem telja verður hættulega samfélaginu þar sem viðkomandi búa yfir bæði löngun og getu til að fremja voðaverk.
- Í landinu eru vopn, aðgengileg almenningi, sem nýta má til að framkvæma hryðjuverk og aðrar stórfelldar árásir. Rúmlega 72.000 skotvopn eru löglega skráð í landinu en fjöldi óskráðra vopna er óþekktur.
- Greiningardeild býr ekki yfir upplýsingum um að í undirbúningi sé hryðjuverk gegn Íslandi eða íslenskum hagsmunum. Vegna takmarkaðra rannsóknarheimilda skortir upplýsingar til að leggja mat á mögulega ógn. Greiningar verða því ónákvæmari en ella sem um leið felur í sér meiri áhættu fyrir samfélagið.
- Skortur á upplýsingum skapar óvissu. Ef lögreglan fær ekki upplýsingar getur það leitt til þess að ekki er hægt að bregðast við og koma í veg fyrir voðaverk. Af þessu leiðir að skortur á upplýsingum er veikleiki sem fallinn er til að auka áhættu.
Tillögur ríkislögreglustjóra til úrbóta:
- Hugað verði að lagasetningu um auknar rannsóknarheimildir lögreglu vegna rannsókna brota er beinast gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórn s.s. hryðjuverkabrotum, sbr. X. og XI. kafla almennra hegningalaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.
- Einnig verði hugað að lagasetningu sem banna ferðalög til þátttöku sem erlendir bardagamenn (e. Foreign fighters) í hryðjuverkastarfsemi.
- Lagt er til að lögreglan verði efld til þess að sinna forvörnum og fyrirbyggjandi starfi á ofangreindu sviði með fjölgun lögreglumanna, sérfræðinga og bættum búnaði.
- Einnig er lagt er til að viðbúnaðargeta almennrar lögreglu þ.m.t. sérsveitar vegna hryðjuverkaógnar og annarra alvarlegra voðaverka verði efld með auknum búnaði og þjálfun.
- Lagt er til að myndaður verði samráðsvettvangur lögreglu, félagsþjónustu og heilbrigðisyfirvalda með auknum heimildum til að miðla upplýsingum um einstaklinga sem kunna að ógna öryggi almennings. Sköpuð verði félagsleg úrræði fyrir þá sem verða fyrir áhrifum róttækni (radikalíseringar, e. radicalization).
- Taka þarf á Íslandi mið af þeim viðbúnaði við hryðjuverkum sem tíðkast á öðrum Norðurlöndum og Evrópusambandinu.
- Veita þarf lögregluyfirvöldum sambærilegar heimildir á sviði hryðjuverkavarna og gert er í nágrannaríkjum, en jafnframt að tryggja fullt eftirlit Alþingis og dómstóla með slíkum heimildum.
- Varnir gegn öfga- og hryðjuverkastarfsemi geta ekki takmarkast við öflugri viðbúnað lögreglu, heldur verða þær líka að byggjast á stefnu í málefnum nýrra Íslendinga og flóttamanna sem tryggir jafnvægi í samfélaginu og auðveldar aðlögun nýrra borgara að því.