Heildarútgjöld ríkissjóðs á fyrri helmingi ársins 2015 voru innan fjárheimilda. Þá var meirihluti fjárlagaliða innan fjárheimilda. Þetta kemur fram í nýbirtum ársfjórðungsuppgjöri ríkissjóðs.
Í uppgjörinu segir að heildarútgjöld hafi verið 319,7 milljarðar króna en samkvæmt fjárlögum áttu samþykktar fjárheimildir að kosta 321,8 milljarða króna. Því eyddi ríkissjóður um tveimur milljörðum krónum minna en hann ætlaði sér á fyrstu sex mánuðum ársins. Þau ráðuneyti, og eftir atvikum undirstofnanir þeirra, sem fóru samtals fram úr heimildum eru innanríkisráðuneytið (1,8 milljarða króna fram úr heimildum, að langmestu leyti vegna Vegagerðarinnar), fjármála- og efnahagsráðuneytið (um 1,1 milljarð króna, að langmestu leyti vegna fjármagnstekjuskatts) og velferðarráðuneytið (190 milljónir króna).
Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu vegna þessa segir að "samtals eru 233 fjárlagaliðir með útgjöld innan heimilda ársins, sem nemur 9,8 ma.kr. og bætist við rúmlega 3 ma.kr. afgang frá fyrra ári. 123 fjárlagaliðir eru með útgjöld umfram fjárheimildir ársins en hjá meirihluta þeirra er hallinn innan við 10 m.kr. eða samtals 233 m.kr. Gert er ráð fyrir að flestir þessara liða verði innan heimilda í árslok. Stærstur hluti umframútgjalda skýrist af fáum liðum en af 15 stærstu umframútgjaldaliðum fara 3 liðir 4,7 ma.kr. fram úr fjárheimildum."
Útgjöld aukast hraðar en tekjur
Kjarninn greindi frá því í lok síðustu viku að útgjöld ríkissjóðs hefðu aukist um 26,6 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2015 samanborið við fyrstu sex mánuðina 2014. Á sama tíma jukust tekjur um 14,2 milljarða króna. Handbært fé frá rekstri var neikvætt um 30,3 milljarða króna samanborið við jákvætt handbært fé upp á rúma ellefu milljarða króna í fyrra. Tekjujöfnuður, munur á tekjum og gjöldum, var jákvæður um 779 milljónir króna.
Greiðsluafkoma ríkissjóðs fyrir fyrri helming árs 2015 var birt fyrir viku síðan. Þar sagði að neikvæð staða handbærs fjárs skýrist að stærstum hluta með því að leiðrétting verðtryggðra húsnæðislána sem gjaldfærð var á árinu 2014 kom til greiðslu nú í byrjun árs 2015. „Þetta hefur eingöngu áhrif á sjóðshreyfingar en ekki rekstrarstöðu ársins 2015 og hafði sambærileg jákvæð áhrif á handbært fé í lok árs 2014,“ sagði í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.