Ríkisskattstjóri hefur í dag afturkallað bindandi álit nr. 2/2015. Guðbjörg Þorsteinsdóttir, skattalögfræðingur hjá Deloitte, sagði að álitið, sem ríkisskattstjóri hafði birt áður, hafi skapað óvissu sem gæti tekið nokkur ár að aflétta. Kom þetta meðal annars fram í viðtali við hana á RÚV.
Samkvæmt álitinu, eins og það var framsett, eiga skuldir sem ekkert fæst upp í í þrotabúum að vera skattlagðar eins og þær væru tekjur. Þannig gætu eignir margra þrotabúa horfið sagði Guðbjörg.
Ríkisskattstjóri hefur nú dregið álitið til baka. „Komið hefur í ljós að undirbúningi þess var áfátt þar sem í álitinu er ekki nægjanlega glöggur munur gerður á eftirgefnum skuldum rekstraraðila og ógreiddum kröfum við lok gjaldþrotaskipta. Verður því nýtt álit gefið út innan fárra daga,“ segir í tilkynningu frá Ríkisskattstjóra. „Ríkisskattstjóri biðst velvirðingar á óþægindum vegna þessa,“ segir enn fremur.