Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Fjármála- og efnahagsráðuneytisins fá ríkisstarfsmenn 10.800 krónur í dagpeninga til greiðslu fæðiskostnaðar á ferðalögum sínum innanlands. Skilyrði fyrir greiðslunni er að starfsmaður sé fjarverandi lengur en í tíu tíma. Sé ferðalagið styttra, minnst sex tímar, hljóðar upphæðin upp á 5.400 krónur.
Í fyrirliggjandi virðisaukaskattsfrumvarpi Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, er gert ráð fyrir að hver máltíð kosti fjögurra manna fjölskyldu 248 krónur á mann. Samkvæmt neyslukönnun Hagstofunnar, sem fjármála- og efnahagsráðuneytið segir að hafi legið til grundvallar sínum útreikningum, er miðað við að það kosti 745 krónur á dag að fæða hvern einstakling í fjögurra manna fjölskyldu.
Ferðakostnaðarnefnd ákvarðar dagpeninga til greiðslu gisti- og fæðiskostnaðar ríkisstarfsmanna á ferðalögum innanlands á vegum ríkisins. Sé tekið mið af neysluviðmiðinu sem birtist í virðisaukaskattsfrumvarpinu myndu 10.800 krónur, sem ríkisstarfsemenn fá til að greiða fyrir mat á ferðalögum sínum duga fyrir 43 máltíðum á dag.