Virðisaukaskattur á matvæli verður líklega hækkaður úr sjö prósentum í ellefu prósent við breytingar á fjárlögum. Til stóð að matarskatturinn yrði hækkaður í tólf prósent. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Með þessu ætlar ríkisstjórnin að koma til móts við gagnrýni á hækkunina. Sú gagnrýni hefur ekki síst komið úr röðum stjórnarþingmanna Framsóknarflokksins, sem samþykktu fjárlagafrumvarpið með fyrirvara í september vegna matarskattshækkunarinnar. Stjórnarandstaðan og verkalýðshreyfingin í landinu hefur einnig gagnrýnt hækkunina harðlega.
Tillögur um breytingar á fjárlagafrumvarpinu verða ræddar á fundi fjárlaganefndar í dag.
Skila miklum viðbótartekjum
Breytingar á virðisaukaskattskerfinu, lækkun efra þreps þess og hækkun þess lægra, var ein stærsta kerfisbreytingin sem kynnt var í öðru fjárlágafrumvarpi Bjarna Benediktssonar, sem kynnt var í september. Tekjur ríkissjóðs vegna virðisaukaskatts eiga að hækka um 20 milljarða króna á milli ára í kjölfar breytinganna og samhliða bættri efnahagslegri stöðu þjóðarinnar.
Um ellefu milljarðar króna eiga að koma til vegna þess að lægra þrep skattsins, sem leggst meðal annars á matvæli og er því kallaður matarskattur, verður hækkaður úr sjö prósentum í tólf. Samkvæmt úttekt ASÍ eyðir tekjulægri hluti þjóðarinnar um það bil tvöfalt stærri hluta af launum sínum í matarinnkaup en þeir sem eru tekjuhærri. Í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir mótvægisaðgerðum upp á einn milljarð króna í formi barnabóta til að milda þetta högg á þá tekjulægri.
Gagnrýni úr mörgum áttum
Þingmenn Framsóknarflokksins virtust ekki alveg sáttir með þessar breytingar og samþykktu fjárlögin með fyrirvara vegna breytinganna á matarskattinum. Forsvarsmenn ASÍ hafa fordæmt þær og segja að breytingarnar á matarskattinum bitna fyrst og síðan á þeim verst settu í samfélaginu, á meðan að aðrir hópar njóti ágóðans af lækkun efra þrepsins.Í sama streng hefur stjórnarandstaðan tekið.
Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, sagði hækkun matarskatts vera rugl.
Andstæðingum breytinganna barst óvæntur liðsauki fyrir skemmstu þegar Davíð Oddsson, fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins og nú ritstjóri Morgunblaðsins, skrifaði í Reykjavíkurbréf blaðsins að ríkisstjórnin ætlaði nú „að keyra í gegn á fáum vikum matarskatt á lægst launaða fólkið í landinu, hvað sem tautar og raular. Eini ávinningurinn sem hægt er hugsanlega að sjá af því er að fá hrós bak við luktar dyr frá ótryggum embættismönnum fyrir að hafa einfaldað virðisaukaskattskerfið með því að fækka skattþrepum þess úr tveimur ofan í tvö. Í stað þess að hætta við ruglið eru boðaðar dularfullar „mótvægisaðgerðir“ sem er svo sannarlega ekki uppskrift að því að „einfalda kerfið“.