Þó nú sé búið að semja um kaup og kjör hjúkrunarfræðinga, þá virðist fátt benda til annars en að undirritunin frá því í fyrrakvöld hafi haft lítinn stuðning meðal hjúkrunarfræðinga.
Ekki var hægt að skilja Ólaf G. Skúlason, formann Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, með öðrum hætti en að undirritunin, þar sem samið var um 18,6 prósent hækkun launa á þremur árum, hafi verið þvinguð fram af stjórnvöldum þar sem fyrir lá að gerðardómur var að fara fá deiluna inn á sitt borð.
Hjúkrunarfræðingar, ein stærsta kvennastétt landsins, virðast ekki ætla að láta þetta yfir sig ganga og því eru yfirgnæfandi líkur á því að samningurinn verði felldur í atkvæðagreiðslu. Vandinn virðist því óleystur.
Stjórnvöld hafa ekki getað leyst þessa deilu, og hafa nú skapað miklar illdeilur, enn einu sinni, gagnvart burðarrásum í heilbrigðisstétt. Lausn sem er þvinguð fram með lagasetningu getur vissulega verið endanleg, en hún getur líka haft viðtæk áhrif, bæði pólitískt og inn í heilbrigðiskerfið íslenska.
Staða ríkisstjórnarinnar er ekki góð um þessar mundir, samkvæmt könnunum, og það er ekki víst að hún batni við að þvinga hjúkrunarfræðinga og aðra sérfræðinga til starfa með lögum, eftir fordæmalausar deilur.