Ásthildur Lóa Þórsdóttir þingmaður Flokks fólksins segir að ríkisstjórnin geti ekki firrt sig ábyrg varðandi hækkandi húsnæðiskostnað heimilanna.
Þetta kom fram í máli hennar undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
Hún benti á að stýrivextir Seðlabankans væru nú 2 prósent. „Ef vextir á húsnæðislánum bankanna væru í sama hlutfalli við stýrivexti og þeir voru til dæmis í maí 2019 ættu þeir núna að vera 2,7 prósent en eru í kringum 4,2 prósent og eiga líklega eftir að fara hækkandi.“ Spurði hún í framhaldinu hvort bankarnir hefðu ekki fengið nóg frá heimilum landsins.
„Er engin krafa um samfélagslega ábyrgð á eigendur og stjórnendur bankanna? Eru þeir bara algerlega stikkfríir og geta alltaf farið sínu fram með hina heilögu arðsemiskröfu fjárfesta að vopni? Hver ákvað að heimilin væru auðlind sem þeir gætu misnotað að vild? Hvenær var þjóðin spurð hvort hún væri sátt við að vera uppspretta auðs fyrir útvalinn hóp fjárfesta? Að sjálfsögðu aldrei,“ svarar hún sjálf.
Segir ríkisstjórnina sitja hjá
„Við hér á Alþingi segjumst öll ætla að vinna fyrir fólkið. En hvað er ríkisstjórnin að gera fyrir fólkið og heimilin í því ástandi sem nú er? Ekkert, nákvæmlega ekkert. Hún situr hjá og lætur eins og henni komi þetta ekki við. Eins og heimilin séu ekkert annað en veiðilendur bankanna og þar hafi þeir ótakmarkaðan kvóta til ofveiða til að auka nú þegar stjarnfræðilegan hagnað sinn.“
Benti hún enn fremur á að tveir af þremur bönkum væru enn í meirihlutaeigu ríkisins. „Ríkisstjórnin ber ábyrgð og getur ekki firrt sig henni. Hvernig er yfirleitt hægt að réttlæta að fyrirtæki með tugmilljarða hagnað hækki álögur á viðskiptavini sína? Það er ríkisstjórnarinnar að verja réttarstöðu heimilanna gagnvart þessari oftöku. En nei, hún hefur ákveðið að standa hjá og fórna þeim aftur. Að minnsta kosti 15.000 fjölskyldur misstu heimili sín eftir síðasta hrun. Á það að gerast aftur?“
Ásthildur Lóa endaði mál sitt á að segja að Flokkur fólksins krefðist þess að ríkisstjórnin verði heimilin gegn hækkandi húsnæðiskostnaði og beitti eigendavaldi sínu á bankana, að hún gripi inn í „þessa oftöku af varnarlausum heimilum landsins sem ekki er með nokkru móti hægt að réttlæta. Hennar er ábyrgðin.“