Ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga sem frestar yfirstandandi verkfallsaðgerðum einstakra aðildarfélaga Bandalags háskólamanna (BHM) og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga til 1. júlí næstkomandi. RÚV greinir frá málinu.
Boðað var til ríkisstjórnarfundar í stjórnarráðinu í kvöld, en í áðurnefndu lagafrumvarpi eru aðilar kjaradeilnanna hvattir til að ná samkomulagi á farsælan hátt, ella fari kjaradeilurnar í gerðardóm. Samkvæmt frétt RÚV verður frumvarpið nú sent þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna til umfjöllunar, en til stendur að leggja það fram á Alþingi eins skjótt og auðið er.
Algjör pattstaða er í kjaraviðræðum félaganna. Ríkissáttasemjari átti þrettán klukkustunda langan árangurslausan fund með samninganefndum ríkisins og BHM í gær, og telur að ekki sé ástæða til að boða til nýs fundar. Ríkissáttasemjari hefur samtals haldið 24 samningafundi með BHM og ríkinu og fundirnir með Félagi hjúkrunarfræðinga og ríkinu eru orðnir tíu talsins. Lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar kemur ekki á óvart, en Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, sagði í fjölmiðlum í gær að komið væri að ögurstundu í kjaraviðræðunum.Auglýsing