Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að setja 450 milljónir króna í viðspyrnuaðgerðir í þágu tónlistar- og sviðslistageiranna vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
Í tilkynningu sem birt hefur verið á vef stjórnarráðsins vegna þessa kemur fram að þeir sem hafa helst tekjur af viðburðarhaldi hafi séð þær skreppa gríðarlega saman á þeim 22 mánuðum sem liðnir eru frá því að faraldurinn skall á. Þannig voru greiðslur til rétthafa í tónlist vegna tónleikahalds á árinu 2021 til að mynda 87 prósent lægri en samsvarandi tekjur árið 2019. Auk þess hafi sjálfstæð leikhús og leikhópar farið verulega illa út úr faraldrinum vegna sóttvarnaraðgerða og lokanna.
Á meðal aðgerða sem gripuð verður til er að eyrnamerkja fólki undir 35 ára aldri listamannalaun í fyrsta sinn. Það er gert annars vegar þannig að 75 milljón króna viðbótarframlag, alls 150 mánaðarlaun listamanna, verður sett í starfslaun listamanna í gegnum launasjóð tónlistarflytjenda. Þar af verður úthlutun 50 mánaðarlauna bundin því skilyrði að ungt tónlistarfólk undir 35 ára aldri njóti góðs af þeim. Hins vegar verða 50 milljónir króna, alls 100 mánaðarlaun listamanna, settar í starfslaun listamanna í gegnum launasjóð sviðslistafólks og 50 mánaðarlaun verða „bundin því skilyrði að ungt sviðslistafólk undir 35 ára aldri njóti góðs af þeim.“
Þá mun ríkissjóður standa að 150 milljón króna greiðslu til tónhöfunda, sem hafa séð tekjur sínar af tónleikahaldi rýrna um 80 prósent milli 2019 og 2020 og álíka mikið milli 2020 og 2021. Tekjur af dansleikjahaldi rýrnuðu einnig um 82 prósent milli áranna 2019 og 2021. „Með framlaginu er hægt að styrkja rétthafa beint í gegnum STEF samtökin, en þeim verður falið að setja viðmið um úthlutun fjárins sem næðu hvorutveggja til þeirra sem höfðu tekjur af höfundaréttargjöldum fyrir heimsfaraldurinn og þeirra sem hafa komið nýir inn á markaðinn undanfarið.“
Tónlistarsjóður fær 50 milljón króna viðbótarframlag til að styðja við viðburðahald á árinu 2022, Hljóðritasjóður fær 40 milljónir króna og ÚTON fær tíu milljónir króna til að koma til móts við íslenskt tónlistarfólk sem sækir fram á erlendri grundu. Þá fær Tónverkamiðstöðin tíu milljónir króna.
Sviðslistasjóður fær svo 25 milljónir króna til að styðja við viðburðarhald á árinu 2022.