Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita Útlendingastofnun 50 milljóna króna aukafjármagn strax til þess að bregðast við auknum fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd. Ólöf Nordal innanríkisráðherra greindi frá þessu á Alþingi nú fyrir skömmu, en fjármagnið er veitt að hennar frumkvæði.
Ólöf gerði málefni hælisleitenda að umtalsefni í umræðum um fjárlögin á Alþingi. Hún sagði nauðsynlegt að „endurskoða þær tölur“ sem eru í fjárlagafrumvarpinu núna hvað varðar málaflokkinn. „Ég bið um liðsinni þingsins,“ sagði Ólöf á þinginu og sagði augljóst að fjárhæðirnar sem gert er ráð fyrir að veitt verði til málaflokksins séu í engu samræmi við þörfina. „Við gátum með engu móti séð þær breytingar sem hér hafa orðið.“
Nú þegar hafa 170 manns sótt um hæli hér á landi það sem af er árinu 2015, en allt árið í fyrra sóttu 175 manns um hæli, sagði Ólöf. Vegna þessarar miklu aukningar hefði meðferðartími umsókna farið að lengjast aftur, en unnið hefur verið að því undanfarin ár að stytta þennan tíma.