Kristín Þorsteinsdóttir, ritstjóri 365 miðla, segir í leiðara Fréttablaðsins í dag að nauðsynlegt sé að upplýsa hvort sérstakur saksóknari hafi logið þegar hann segist ekki hafa vitað um tengsl Sverris Ólafssonar, eins dómara í Aurum-málinu svokallaða, og Ólafs Ólafssonar, sem var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í Al Thani-málinu svokallaða. Hún segir niðurstöðu Hæstaréttar þess efnis að hvorki Sverrir né Guðjón St. Marteinsson, sem var dómsformaður í Aurum-málinu í héraði, fái að bera vitni þegar ómerkingarkrafa sérstaks saksóknara á sýknu í málinu verður tekin fyrir í málinu 13. apríl næstkomandi vera óboðlega. Hún megi „ekki vera endahnútur þessa máls. Nú taka fjölmiðlar við,“ segir Kristín.
Einn sakborninga í Aurum-málinu er Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður Ingibjargar Pálmadóttur stærsta eiganda 365 miðla. Allir sakborningarnir voru sýknaðir í fyrra en ríkissaksóknari vill ómerkingu dómsins vegna vanhæfis Sverris sökum vensla hans við Ólaf. Ef Hæstiréttur fellst á þau rök verður réttað aftur yfir sakborningum málsins fyrir héraðsdómi.
Dómsformaður sendi aðsenda grein til Fréttablaðsins
Fjölskipaður héraðsdómur sýknaði í fyrra sumar Jón Ásgeir, Lárus Welding, Magnús Arnar Arngrímsson og Bjarna Jóhannesson í Aurum-málinu. Þeir voru ákærðir fyrir umboðssvik og hlutdeild í þeim í tengslum við sex milljarða króna lánveitingu Glitnis til félags sem hét FS 38 ehf., og var í eigu Pálma Haraldssonar. Lánið var veitt til kaupa á Aurum Holdings. Einn dómaranna þriggja, Arngrímur Ísberg, skilaði sératkvæði og taldi að sakfella ætti Lárus, Magnús Arnar og Jón Ásgeir. Hinir tveir dómararnir, Guðjón St. og Sverrir, vildu hins vegar sýkna alla sakborninga.
Í leiðara Fréttablaðsins í dag, sem ber nafnið „satt eða ósatt?“, segir Kristín frá því að blaðinu hafi borist aðsend grein frá Guðjóni St. þann 10. júní í fyrra. Þar fjallaði hann um meint óhæfi Sverris Ólafssonar. Guðjón hætti hins vegar við að birta greinina nokkru síðar.
Kristín segir að á meðal málsgagna í ómerkingarmálinu fyrir Hæstarétti sé tölvupóstur frá Guðjóni St. og blaðagreinin sem hann ætlaði eitt sitt að birta. „Í tölvupóstinum segir að Guðjón hafi hætt við birtingu greinarinnar eftir að hafa rætt efni hennar við ríkissaksóknara og sérstakan saksóknara. Ástæðan er að á þeim tíma sá hann ekki né reiknaði með að krafa ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti yrði ómerkingarkrafa. Í tölvupóstinum segir síðan: „Ég hefði hins vegar birt greinina hefði svo verið."“
Kristín segir málið merkilegt vegna þess að í tölvupóstinum og greininni eftir Guðjón St. er fullyrt að Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, hafi hringt í Guðjón daginn eftir að tilkynnt hafi verið um að Sverrir væri meðdómari í málinu. Í því símtali hafi Ólafur Þór sjálfur greint frá tengslum Sverris og Ólafs og ekki gert athugsemd við hæfi Sverris.
Jón Ásgeir Jóhannesson, sem var árum saman aðaleigandi 365 miðla, er einn sakborninga í Aurum-málinu. Eiginkona hans, Ingibjörg Pálmadóttir, er í dag stærsti eigandi 365 miðla.
Ólafur segir þetta vera rangminni hjá dómaranum
Ólafur sagði í samtali við Fréttablaðið þann 19. mars síðastliðinn að þetta væri rangminni hjá dómaranum. Hann hafi sagt Guðjóni frá því að Sverrir hefði unnið fyrir skilanefnd Glitnis, sem væri kærandi í málinu og væri með bótakröfu vegna þess.
Í leiðara Kristínar segir: „Kunnugir segja það einsdæmi að dómari hafi haldið því fram opinberlega að saksóknari hafi logið um atriði er varðar meðferðina. Hæstiréttur hefur hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að ekki séu ástæður til að leiða frekar í ljós hver segi satt og hver ósatt. Varla getur það verið boðleg niðurstaða út frá sanngirnis- og réttaröryggissjónarmiðum?
Sérstakur saksóknari gegnir mikilvægu embætti. Hann hefur örlög fjölda manna í höndum sér. Hvaða skoðun sem fólk hefur á persónum og leikendum getum við vonandi öll sammælst um að tilgangurinn helgar ekki alltaf meðalið þegar örlög fólks eru í húfi.
Það er nauðsynlegt að upplýsa hvort sérstakur saksóknari laug þegar hann sagðist ekki hafa vitað um tengsl Sverris og Ólafs Ólafssona. Niðurstaða Hæstaréttar er óboðleg, og má ekki verða endahnútur þessa máls. Nú taka fjölmiðlar við.“