Eggert Skúlason, annar ritstjóra DV, spyr í stöðuuppfærslu á Facebook hvort umfjöllun DV um losun hafta sé leki eða góð blaðamennska? Þar segir hann það vera "ofurlítið sérstakt að fylgjast með umræðu á Alþingi þar sem forsíðufrétt DV frá því á föstudag var rauði þráðurinn í umræðunni. Nú vilja einstaka þingmenn láta rannsaka þennan leka eins og þeir kalla frétt DV af málinu. Frétt DV um losun hafta er bara enn eitt púslið í viðamikilli umfjöllun okkar um gjaldeyrishöftin. Þar hefur DV verið í fararbroddi."
Tilefni skrifa Eggerts eru ummæli Steingríms J. Sigfússonar, þingmanns Vinstri grænna, og Össurar Skarphéðinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um meintan leka úr innsta hring stjórnvalda um áætlun þeirra um losun hafta til DV, en blaðið birti frétt á föstudag þar sem meginatriði áætlunarinnar voru sögð koma fram. Fulltrúar Seðlabanka Íslands, sem mættu á fund efnahags- og viðskiptanefndar í gær vegna breytingu á lögum um gjaldeyrismál, sögðu að lagabreytingin yrði að eiga sér stað þá vegna lekans til DV. Tilgangur hennar var að stoppa upp í göt á höftunum sem óttast var að slitabú myndu nýta sér.
Össur sagði í stöðuuppfærslu á Facebook í nótt að trúnaðarupplýsingum um afnám hafta hafi verið lekið í DV af einhverjum úr innsta hring ríkisstjórnarinnar og ráðgjafa hennar. Það hafi verið ástæða þess að Seðlabankinn óskaði eftir að Alþingi kæmi saman til skyndifundar í gærkvöldi, á sunnudegi. „Innsti hringurinn míglekur raunar, því viðskiptaritstjóri DV hefur allajafna meiri upplýsingar en almennir ráðherrar um stöðuna – og miklu meiri en nokkur þingmaður.Gera menn sér grein fyrir hvað þetta þýðir? – Í miðju framkvæmdavaldsins er trúnaður brotinn. Upplýsingum, sem geta skaðað stöðu Íslands gagnvart kröfuhöfum er lekið. Trúnaðarbrotið er það alvarlegt að það þarf skyndifund Alþingis til að koma í veg fyrir skaða.“
Viðskiptaritstjóri DV er Hörður Ægisson sem hefur skrifað fjölmargar fréttir undanfarin misseri sem byggja á trúnaðarupplýsingum úr haftalosunarstarfinu.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, sagði í þingræðu í gær að fulltrúar Seðlabankans hafi tilgreint það sérstaklega á fundi efnahags- og viðskiptanefndar að ástæða þess að verið væri að gera breytingar á gjaldeyrislögum með afbrigðum á sunnudegi væri leki á upplýsingum um haftaáætlun stjórnvalda, sem hafi birst sem frétt í DV á föstudag. Lekin hafi leitt til skjálfta í kerfinu og Seðlabankinn hafi fundið aukin þrýsting um að hjáleiðir til að reyna að sleppa út með fjármuni áður en áætluninni yrði hrint í framkvæmd væru í undirbúningi. „Þarna á sér stað hættulegur, raunverulegur og skaðlegur leki,“ sagði Steingrímur.