Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, var í dag valinn Startup blaðamaður ársins á Íslandi á íslensku úrslitunum á Nordic Startup Awards. Hann mun keppa um að verða Startup Journalist of the Year á Norðurlöndunum í aðalúrslitum verðlaunanna sem fara fram í Helsinki 26. mars næstkomandi.
Aðrir sem hlutu verðlaun í íslensku úrslitum verðlaunanna eru Georg Lúðvíksson frá Meniga (Founder of the Year), Kristján Ingi Mikaelsson (Developer Hero), Bókun (Startup of the Year), Startup Reykjavík (Best Accelerator Program), Modio (Best Bootstrapped), Sigurður Arnljótsson (Best Proffesional Investor), Mekano ehf. (Best Newcomer) og 27 Nýsköpunarhús-Borgartún 27 (Best Office Space). Auk þess hlaut Edda Hermannsdóttir, aðstoðarritstjóri Viðskiptaverðlaun, sérstök Peoples Choice verðlaun fyrir að hafa fengið flest atkvæði í netkosningu um sigurvegaranna.
Allir sigurvegararnir í íslensku úrslitunum munu keppa um sigur í aðalkeppninni milli allra Norðurlandanna í Helsinki í lok þessa mánaðar.
Umfangsmikil og víðtæk umfjöllun um nýsköpun og frumkvöðla
Kjarninn hefur frá stofnun sinni, fyrir tæpum tveimur árum, lagt mikla áherslu á umfjöllun um frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun. Starfsmenn hans hafa tekið fjöldann allan af viðtölum við, og skrifað fréttir um, íslensk fyrirtæki sem eru að slíta barnskónum eða í vaxtaferli. Sérstaklega þau sem eru að gera eitthvað alveg nýtt. Auk þess hafa þeir skrifað ótal greiningar á því umhverfi sem slík fyrirtæki búa við hérlendis og þá möguleika sem þau hafa til að vaxa og dafna.
Þá hefur verið gerður urmull hlaðvarpa þar sem áhersla er á nýsköpun. Hlusta má á nokkur þeirra hér, hér, hér og hér.
Kjarninn fjallaði einnig ítarlega um Startup Reykjavík hraðalinn á síðasta ári. Þar gerði hann fjölmörg stutt myndbönd um verkefni sem tóku þátt í hraðlinum. Þau má sjá hér.
Kjarninn sýndi auk þess beint frá nýsköpunarhádegi í Innovation House þar ýmsir áhugaverðir frummælendur komu fram.
Fyrr á þessu ári var Kjarninn samstarfsaðili Klak Innovit í að halda frumkvöðlakeppnina Gulleggið, sem þá var haldið í áttunda sinn. Kjarninn stóð einnig að Nexpó verðlaunahátíðinni ásamt Klak Innovit, Símon.is og Nýherja.
Kjarninn hefur auk þess átt náið samstarf við hópfjármögnunarsíðuna Karolina Fund og birt umfjallanir um ýmis spennandi verkefni sem hafa sóst eftir því að ná í fjármagn í gegnum þá síðu.
Verðlaunin sem ritstjóri Kjarnans hlaut í dag fyrir hönd miðilsins eru því mikil viðurkenning fyrir það mikla starf sem öll ritstjórn Kjarnans hefur unnið við að vekja athygli á og fjalla um nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi frá stofnun hans síðsumars 2013.