Ritstjórn Vísis fjarlægði frétt af fréttavefsíðu sinni í rúma viku, þar sem rithöfundurinn Bergljót Arnalds brást við yfirlýsingu fyrrverandi eiginmanns síns um að hún hafi borið á hann rangar sakir um að hafa beitt hana heimilisofbeldi. Ritstjórn Vísis svaraði hvorki fyrirspurnum Bergljótar né Kvennaathvarfsins um af hverju fréttin var fjarlægð. Þá var ekkert samráð haft við blaðamanninn sem skrifaði fréttina áður en hún var fjarlægð.
Eftir að hafa fengið ábendingar um að fréttin væri horfin af vefsíðu Vísis leitaði Bergljót skýringa hjá Kristínu Þorsteinsdóttur, útgefanda og aðalritstjóra 365, í tvígang með tölvupósti. Tölvupóstunum var aldrei svarað, en Kjarninn hefur þá undir höndum. Þá hefur Kjarninn fengið staðfest að starfskona hjá Kvennaathvarfinu hafi sömuleiðis sent ritstjórn Vísis fyrirspurn um hvarf fréttarinnar í tölvupósti. Þeirri fyrirspurn var heldur ekki svarað.
Ásakanir gengið á báða bóga
Forsögu málsins má rekja til viðtals við Bergljótu í Stundinni, þar sem hún greinir frá heimilisofbeldi sem hún segist hafa orðið fyrir meðal annars af hálfu fyrrverandi eiginmanns síns og barnsföðurs. Í kjölfarið birtist sambærilegt viðtal við Bergljótu á mbl.is. Lögmaður mannsins sendi svo frá sér yfirlýsingu þar sem ásökunum Bergljótar er vísað á bug og þær sagðar uppspuni og engin gögn styðji frásögn hennar.
Fréttavefurinn Vísir birti frétt undir fyrirsögninni: „Segir fyrrum eiginmann rústa mannorði sínu með lygum,“ þann 18. mars síðastliðinn. Í fréttinni brást Bergljót við ásökunum fyrrverandi eiginmanns síns. Þar kveðst hún nauðbeygð til að svara, bæði til að verja mannorð sitt en einnig vegna baráttunnar gegn heimilisofbeldi. Þá er meðal annars vitnað til áverkavottorðs og tölvupósts í fréttinni, þar sem fyrrverandi eiginmaður og barnsfaðir Bergljótar segir: „Ég mun aldrei leggja á þig hendur aftur.“ Umrædd frétt var síðar fjarlægð fyrirvaralaust af vefsíðu Vísis þann 20. mars.
„Nógu erfitt að stíga fram“
Eftir að fréttin var tekin niður leitaði Bergljót skýringa hjá Kristínu Þorsteinsdóttur, útgefanda og aðalritstjóra 365. Pósturinn var sendur 25. mars síðastliðinn, en þar skrifar Bergljót meðal annars: „Ég veit ekki hvað veldur en vona að ekki sé það vegna óska viðkomandi manns. Nógu erfitt er fyrir konur að kæra ofbeldismann sinn, hvað þá að stíga fram með þessi persónulegu og viðkvæmu mál þótt ofbeldismaðurinn komist ekki upp með það átölulaust að þagga niður í þeim sem talar með nafnlausri yfirlýsingu sem er byggð á rógburði og lygum. Fréttin er í því ljósi gríðarlega mikilvæg.“
Ekkert svar barst Bergljótu frá aðalritstjóra 365, en fréttin fór aftur í loftið 29. mars. Í millitíðinni hafði starfskona frá Kvennaathvarfinu sent tölvupóst á netfang ritstjórnar til að forvitnast um fréttina þann 27. mars.
Í samtali við Kjarnann segir Bergljót að eftir að fréttin var sett inn í annað skiptið hafi ekki verið hægt að leita að henni á leitarsíðum eins og til að mynda Google, og ekki heldur í gegnum innri leit á vefsíðu Vísis. Þá sendi Bergljót annan tölvupóst á Kristínu Þorsteinsdóttur, dagsettan 31. mars, þar sem segir: „Mér finnst þessi vinnubrögð fyrir neðan allar hellur og mjög alvarleg. Ég krefst skýringa og ég krefst þess að fréttin verði gerð finnanleg á leitarsíðum. Þá vil ég óska eftir að Vísir sendi frá sér tilkynningu þar sem beðist er velvirðingar á þeim mistökum að taka fréttina niður í heila viku skömmu eftir að hún birtist og þar sem mistökin eru hörmuð.“
Sem fyrr barst ekkert svar Bergljótu frá aðalritstjóra 365, en Kolbeinn Tumi Daðason aðstoðarritstjóri 365, hafði samband við hana símleiðis til að greina frá sjónarmiðum ritstjórnar Vísis og biðja hana afsökunar í kjölfar þess að hún fjallaði um málið á Facebook-síðu sinni þann 9. apríl síðastliðinn.
Ekkert samráð haft við blaðamanninn
Jakob Bjarnar Grétarsson, blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina, segir aðspurður í samtali við Kjarnann að hann hafi unnið fréttina og viðtalið við Bergljótu eftir bestu samvisku. Ekkert samráð hafi verið haft við hann þegar fréttin var tekin niður og þannig málið honum óviðkomandi. Jakob óskaði eftir því að frekari fyrirspurnum yrði beint til ritstjóra.
Kjarninn sendi Kristínu Þorsteinsdóttur fyrirspurn vegna málsins í tölvupósti á föstudaginn, sem ekki hefur verið svarað. Í skriflegu svari Kolbeins Tuma aðstoðarritstjóra við fyrirspurn Kjarnans segir: „Athugasemdir voru gerðar við fréttina sem voru þess eðlis að við töldum ástæðu til þess að taka þær til skoðunar. Á meðan sú skoðun stóð yfir tókum við fréttina úr birtingu. Þegar við höfðum gengið úr skugga um að fréttin væri í lagi birtum við hana á ný. Auðvitað hefðum við viljað að skoðunin hefði tekið skemmri tíma en raun bar vitni og biðjum við Bergljótu afsökunar á því.“
Aðspurður um hver hafi sent umræddar athugasemdir, hvers eðlis þær hafi verið og hvernig þær hafi verið sannreyndar, svaraði Kolbeinn Tumi: „Við ætlum ekkert að fara nánar í verklag innanhúss vegna þessarar fréttar. Vísa bara í fyrra svar vegna fyrispurnarinnar.“
Eftir að Kjarninn fór að grafast fyrir um málið, sendi aðstoðarritstjóri 365, Bergljótu Arnalds orðsendingu í gegnum skilaboðaþjónustu Facebook. Þar sem hún er aftur beðin afsökunar á málinu og það harmað að það hafi tekið rúma viku að setja fréttina aftur í loftið.