Bandaríski hagfræðiprófessorinn Robert Z. Aliber telur að ríki heimsins, sérstaklega smærri þjóðir, verði að handstýra skammtímahreyfingum fjármagns inn og út úr landinu. Á fyrirlestri í Háskóla Íslands í dag sagði hann það flæði gjaldeyris sem ekki tengist vöru- og þjónustuviðskiptum skaðlegt og að seðlabankar og stjórnvöld verði að bregðast við af mun meiri ákafa en gert hefur verið til þessa. Aliber vildi þó ekki kalla þessar tillögur sínar „fjármagnshöft“, þótt tillögur hans feli raunar í sér að hefta flæði fjármagns.
„Eitt sinn þegar ég var að spila tennis við fyrrum prófessor minn, James Tobin, þá sagði hann við mig: Robert, það er ekki gaman þegar skattur er nefndur í höfuðið á þér,“ sagði Aliber á fundinum og vísaði til Tobin-skattsins svokallaða, nefndur í höfuðið á James Tobin, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði. Aliber vill því ekki að hugmyndir sínar um breytt gjaldmiðlakerfi séu kenndar við hann né fjármagnshöft.
Aliber hefur nokkrum sinnum áður heimsótt Ísland og haldið fyrirlestra í Háskóla Íslands. Hann vakti mikla athygli þegar hann kom til landsins í maí 2008 og spáði efnahagskrísu. Fyrirlesturinn í dag var á vegum hagfræðideildar HÍ og Samtaka sparifjáreigenda. Yfirskrift fundarins var „Evra eða króna: Hvað hefur fjármálakreppan kennt okkur um gengisfyrirkomulag?“. Aliber ræddi þó lítið sem ekkert um kosti og galla evru og krónu en reifaði hugmyndir og kenningar sínar um gjaldeyrismarkaðinn og fyrirkomulag á honum í dag, sem hann telur fársjúkt.
Gjaldmiðlastríð stendur yfir
Aliber sagði að í dag standi yfir gjaldmiðlastríð og þótt hugtakið um gjaldmiðlastríð hafi fyrst komið fram á 4. áratug síðustu aldar þá sé það annars eðlis í dag. Síðastliðin tvö og hálft ár hafi þjóðir heimsins, upphaflega Japanir, veikt gjaldmiðla sína markvisst í þeim tilgangi að fá meira fyrir útflutning sinn. Þennan leik hafi aðrar þjóðir leikið eftir, jafnvel þótt þau hafi fyrir skilað afgangi af landsframleiðslu. Veiking eins gjaldmiðils þýðir styrking gjaldmiðils annarrar þjóðar, sem fær þá minna fyrir sinn útflutning. Til þessa hafi það verið Bandaríkin sem sjá gjaldmiðil sinn styrkjast og styrkjast. „En við ætlum ekki að vera boxpúði fyrir önnur ríki,“ sagði Aliber.
Þá fjallaði Aliber um hvernig gengi gjaldmiðils hvers ríkis er mikilvægasta efnahagsstærð hans og ræður öllu um framgang efnahagslífs landsins. Vandamálið sé hins vegar að þessi eina stærð, það er gengi gjaldmiðilsins, sinnir tveimur mörkuðum, það eru markaður með vörur og þjónustu annars vegar og fjármálamarkaður hins vegar. Fjármálamarkaður hafi tekið yfirhöndina á síðustu áratugum, allt snúist um hann og veldur skaðlegu skammtímaflæði fjármagns. Gjaldeyrismarkaðurinn í dag er því skaðvænlegur, virkar ekki sem skyldi, og þjónar ekki þeim sem sýsla með vörur og þjónustu heldur eingöngu þeim sem starfa á fjármálamarkaði, sagði Aliber.
Þetta vill hagfræðiprófessorinn leysa með því að færa seðlabönkum nýtt tæki til að vinna með. Tækið, eða aðferðina, kallar hann á ensku „macro-credential requirements“ og við frekari útskýringar hans á fundinum mátti heyra að Aliber vill að seðlabankar stýri flæði skammtímafjármagns. Fjármagnsflæði sem einungis er hugsað til skamms tíma geti hæglega verið skaðlegt og sögulega hafi sveiflur sem það veldur leitt til fasteigna- og verðbréfabólumyndunar. Hann telur að seðlabankar eigi áfram að nota stýrivexti til að hafa áhrif á innlent efnahagslíf og vaxtakjör í landinu en slíta þurfi á tengslin við fjármagnsflæði. Það getur nefnilega verið afar skaðleg líkt og gerðist á Íslandi þegar vaxtamunaviðskipti voru mikið stunduð með íslensku krónuna.