Rögnunefndin, sem kannar mögulega flugvallarkosti á höfuðborgarsvæðinu, mun skila skýrslu sinni í næstu viku. Nefndin, sem heitir eftir Rögnu Árnadóttur, formanni hennar, hefur starfað frá því í október 2013. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Nefndin er stýrihópur um sameiginlega athugun ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group og talið er að niðurstaða hennar muni skipta miklu máli varðandi framtíð Reykjavíkurflugvallar, sem hefur verið mikið deilumál undanfarin ár. Upphaflega átti nefndin að skila skýrslu sinni og niðurstöðum fyrir síðustu áramót en fékk þá frest til 15. júní. Hann var svo lengdur til 15. júní, sem var á mánudag. Ragna segir í samtali við Morgunblaðið að ákveðið hafi verið að nefndin skili niðurstöðu vinnu sinnar í næstu viku, vonandi um miðja vikuna.