„Niðurstöður könnunar á afdrifum fjölskyldna á Suðurnesjum sem misstu húsnæði sitt á nauðungarsölu á árunum 2008 til 2011 leiðir í ljós að 81 prósent þeirra býr nú í leiguhúsnæði. Áberandi er að hátt hlutfall skuldara nýtti sér ekki opinber úrræði sem í boði voru og hefðu getað komið þeim að gagni vegna skorts á upplýsingum um þau.“ Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu velferðarráðuneytisins.
Umræddri könnun var hleypt af stokkunum í kjölfar rannsóknar, sem birt var í desember árið 2012, um nauðungarsölu íbúðarhúsnæðis á Suðurnesjum á árunum 2001 til 2011, sem leiddi í ljós að nauðungarsölur voru þar hlutfallslega mun algengari en annars staðar á landinu. Í úrtaki voru 335 einstaklingar og fjölskyldur en 150 þeirra svöruðu.
Tíu prósent upp á ættingja komin - nauðungarsölur hafa mikil áhrif á börn
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar sem kynntar voru í dag, búa tæp níu prósent þeirra sem misstu húsnæðið sitt á nauðungarsölu í eigin húsnæði og um 10 prósent svarenda búa ýmist inn á ættingum sínum eða hafa afnot af húsnæði í eigu þeirra.
Þá kemur fram að nauðungarsala hafi mikil áhrif á hagi barna. Í apríl 2014 bjuggu börn á um helmingi þeirra heimila þar sem húsnæðið var selt á nauðungarsölu. Um 45 prósent barnanna þurftu að skipta um skóla í kjölfarið, um 32 prósent barnanna misstu tengsl við vini sína og um 15 prósent þeirra þurftu að hætta í tómstunda- eða íþróttastarfi.
Þá vekur athygli að 63 prósent þeirra sem misst hafði húsnæði sitt á nauðungarsölu hafði ekki nýtt sér nein úrræði vegna fjárhags- eða húsnæðisvanda. „Viðmælendur vissu ýmist ekki af þeim, skildu þau ekki eða fengu misvísandi upplýsingar frá ólíkum aðilum um hvaða úrræði stæðu til boða og hvernig ætti að bera sig eftir þeim,“ eins og segir í áðurnefndri frétt velferðarráðuneytisins.
Bæta þarf upplýsingagjöf
Helstu ástæður sem svarendur rannsóknarinnar gáfu á húsnæðismissinum voru forsendubrestur vegna efnahagshrunsins, eða 27,4 prósent svarenda, 26,5 prósent svarenda ráku húsnæðismissinn til tekjulækkunar, með eða án atvinnumissis, og þá leiddi mikil lántaka og háar afborganir til húsnæðismissis í 23 prósentum tilfella. „Viðmælendur í viðtalskönnuninni nefndu margir að þeim hafi boðist hærri lán til íbúðakaupanna en þeim sjálfum fannst forsvaranlegt.“
Þá segir að lokum um niðurstöður könnunarinnar: „Niðurstöður könnunarinnar leiða skýrt í ljós að stór hluti þeirra sem könnunin náði til skorti upplýsingar, þekkingu og getu til að leita sér aðstoðar og færa sér í nyt opinber úrræði fyrir fólk í fjárhags- og húsnæðisvanda. Höfundar könnunarinnar telja því mikilvægt að skoða betur hvernig koma megi til móts við þarfir skuldara á þeirra forsendum, til dæmis hvað varðar framsetningu opinberra aðila á upplýsingum, ráðgjöf og leiðbeiningum, svo og framsetningu á reglum um hvernig tekið er á skuldamálum, hvort sem um er að ræða skuldir almennt eða sértæk úrræði vegna húsnæðisskulda.“