Málskotnaður í máli sérstaks saksóknara gegn Sigurjóni Þ. Árnasyni og Sigríði Elínu Sigfúsdóttur, fyrrverandi bankastjóra og framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Landsbankans, fellur allur á ríkissjóð en þau voru sýknuð af ákærum um umboðssvik í morgun. Samtals eru það 18,1 milljón króna til Sigurðar, lögmanns Sigurjóns, og tæplega sex milljónir til Helgu Melkorku Óttarsdóttur hrl., lögmann Sigríðar Elínar, eða samanlegt um 24 milljónir króna. Til samanburðar þá nemur þessi málkostnaður sem lendir á ríkissjóði í málinu, verði þessi niðurstaða endanleg, tæplega 8,2 prósentum af heildarfjárveitingu ríkissjóðs til embættis sérstaks sakskóknara á næsta ári.
Samkvæmt fjárlögum, sem nú eru til umræður á Alþingi, verða það um 292 milljónir króna, og hefur Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, sagt að verði það heildarfjármagnið fyrir næsta ár þá muni rannsókn á tugum mála verða hætt og starfsfólki sagt upp störfum.
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í morgun, í máli sérstaks saksóknara gegn Sigurjóni og Sigríði Elínu, er málatilbúnaði ákæruvaldsins algjörlega hafnað og ekki talið að embættinu hafi tekist að sanna neitt af því sem ákært er fyrir.
Samkvæmt ákærunni samþykktu og undirrituðu Sigurjón og Elín sjálfskuldaábyrgðir Landsbankans á lánasamninga Kaupþings við tvö félög án utanaðkomandi tryggina, þann 4. júlí árið 2006, fyrir hönd Landsbankans. Félögin sem um ræðir voru Empennage Inc. og Zimham Corp., sem bæði voru skráð á Panama. Sjálfskuldaábyrgðirnar hljóðuðu samtals upp á 6,8 milljarða króna, en lán Kaupþings til félaganna voru tryggð með veði í Landsbankanum að nafnverði fyrir samtals 332 milljónir króna. Ákært var fyrir umboðssvik.
Í dómi héraðsdóms í málinu, þar sem Guðjón Marteinsson var dómari, segir orðrétt:
„Ásetningur er saknæmisskilyrði samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga. Þegar allt er virt er það mat dómsins að ekki sé uppfyllt saknæmisskilyrði 249. gr. almennra hegningarlaga að því er varðar misnotkun á aðstöðu. Verða ákærðu því ekki talin hafa haft ásetning til þess að misnota aðstöðu sína enda hefur ekkert annað komið fram en að ákærðu hafi aðeins haft hag bankans að leiðarljósi við ábyrgðarveitinguna [...] Um fjártjónshættu og að ákærðu hafi stefnt fjármunum bankans í verulega hættu er vísað til sömu sjónarmiða sem rakin voru í ákærulið 1. Því til viðbótar er vísað til framburðar ákærða Sigurjóns sem hann hefur stutt eigin útreikningum um áhættustöðu bankans og til vitnisburðar Hauks Þórs Haraldssonar. Á sama hátt og lýst var í ákærulið 1 hefur ákæruvaldið ekki aflað fullnægjandi sönnunargagna um fjártjónshættu.“
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort málinu verður áfrýjað til Hæstaréttar.