Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að skipa Runólf Pálsson í embætti forstjóra Landspítala til næstu fimm ára. Í tilkynningu á veg stjórnarráðsins segir að ákvörðun ráðherra sé tekin að undangengnu mati lögskipaðrar hæfnisnefndar sem mat Runólf meðal þeirra umsækjenda sem hæfastir þóttu til að gegna embættinu.
Greint var frá því í byrjun október að Páll Matthíasson myndi láta af störfum sem forstjóri spítalans. Hann hafði gegnt því embætti í átta ár en þar á undan var hann í rúm fjögur ár framkvæmdastjóri geðsviðs spítalans.
Embættið var auglýst í kjölfarið og alls sóttu fjórtán um það áður en umsóknarfrestur rann út í nóvember. Þriggja manna hæfisnefnd fór í kjölfarið yfir hæfi umsækjenda.
Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að Runólfur hafi afburðarþekkingu á öllum þáttum faglegrar starfsemi spítalans og einnig yfirgripsmikla þekkingu á heilbrigðiskerfinu hér á landi í víðu samhengi, samspili stofnana og mismunandi þjónustustiga. „Hann hefur verið leiðandi og farsæll í klínískum störfum og sem stjórnandi. Runólfur hefur unnið að innleiðingu margvíslegra umbóta og nýjunga og framtíðarsýn hans fyrir Landspítala er skýr. Runólfur hefur mikla reynslu og þekkingu á kennslu- og þjálfunarhlutverki spítalans. Hann var kennslustjóri lyflækningasviðs og staðgengill framhaldsmenntunarstjóra lyflækningasviðs Landspítala auk þess að hafa komið að fjölda nefnda og annarra stefnumótandi starfa í tengslum við kennslu- og þjálfunarhlutverk spítalans.“