Carrin F. Patman, sem í febrúar var tilnefnd af Joe Biden Bandaríkjaforseta til þess að gegna embætti sendiherra á Íslandi, kom fyrir utanríkismálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings á fimmtudag og sagðist ætla að beita sér fyrir auknum tengslum Bandaríkjanna og Íslands á sviði varnarmála, yrði hún staðfest í embættið.
Á fundi nefndarinnar kom auk annars fram í máli Patman, sem er lögfræðingur frá Texas, að hún teldi að Bandaríkjamenn hefðu verið of snöggir á sér við að loka herstöð sinni á Keflavíkurflugvelli, þar sem nú hefði komið á daginn að Kalda stríðinu væri í reynd mögulega ekki alveg lokið.
Hefur gefið duglega í kosningasjóði demókrata
Patman er, rétt eins Jeffrey R. Gunter, sendiherrann sem Donald Trump tilnefndi í sendiráð Bandaríkjanna í Reykjavík, ekki með neina fyrri reynslu af störfum í utanríkisþjónustu Bandaríkjanna.
Hún er hins vegar tengd inn í Demókrataflokkinn, en bæði pabbi hennar og afi hennar sátu í fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir flokkinn. Hinn afi hennar sat á ríkisþingi Texas-ríkis.
Patman sjálf hefur gefið allnokkuð fé í kosningasjóði demókrata á undanförnum árum, þar af yfir 200 þúsund bandaríkjadali í ýmsa sjóði sem studdu við kosningabaráttu Joe Bidens, samkvæmt frétt miðilsins Houston Chronicle, sem fjallaði um tilnefningu hennar í sendiherrastöðuna fyrr á árinu.
Í þeirri frétt er haft eftir Patman að síðasta starf hennar sem stjórnarformaður Houston Metro, opinbers félags utan um almenningssamgöngur í Houston, væri búið að búa hana undir diplómatískt starf. Reyndar var þess getið að hún væri að grínast.
Vill dýpka öryggissamstarfið við Ísland
Í ræðu sinni frammi fyrir þingnefndinni, sem lesa má í skriflegri útgáfu hér, lagði Patman nokkra áherslu á varnarmál. Hún sagði hnattræna staðsetningu Íslands mikilvæga bæði fyrir Bandaríkin og fyrir heiminn.
„Rússland og Kína skilja strategískt mikilvægi Íslands, bæði efnahagslega og hernaðarlega, og ef ég verð skipuð í embætti, mun ég leitast við að dýpka öryggissamstarf okkar við Ísland og styðja Ísland í að takast á við þessar áskoranir,“ sagði Patman í ræðunni.
Er Patman og fleiri tilnefndir verðandi sendiherrar sem komu fyrir nefndina á fimmtudag höfðu lokið máli sínu fengu nefndarmenn að spyrja þá spurninga um hugðarefni sín.
Íslenskir ráðamenn sagðir á varðbergi gagnvart umsvifum Bandaríkjanna
Bill Hagerty þingmaður repúblikana frá Tennessee sagði að þrátt fyrir að íslenska ríkisstjórnin hefði verið í samstarfi við Bandaríkjamenn um uppbyggingu frekari aðstöðu á Keflavíkurflugvelli væru „sumir ráðamenn og þingmenn á Íslandi“ á varðbergi (e. cautious) gagnvart aukinni fyrirferð Bandaríkjamanna á Íslandi, í hernaðarlegu tilliti.
„Ef þú verður staðfest sem sendiherra, hvernig myndir þú styrkja varnarsambandið á milli Íslands og Bandaríkjanna?“ spurði Hagerty.
Patman svaraði því til að hún myndi leitast við að eiga gott samstarf við æðstu lög ríkisstjórnar Íslands, halda því samstarfi áfram og gefa Íslendingum til kynna „hversu mikils metin þau eru og hafa verið í yfir 70 ár sem strategískir bandamenn“.
Ben Cardin þingmaður demókrata beindi einnig spurningu til Patman. Hann minnti á að Ísland hefði engan her, einungis Landhelgisgæslu, gaf í skyn að Rússar væru til alls líklegir á norðurslóðum og vildi því fá að vita hvernig sendiherrann verðandi myndi beita sér fyrir því að varnir í heimshlutanum yrðu styrktar.
Patman vísaði í svari sínu til nýlegrar ræðu sem hún hafði heyrt Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra halda á viðburði í Washington og sagðist hafa tekið það út úr ræðunni að viðhorf Íslands til Rússlands hefðu gjörbreyst í ljósi innrásar Rússa í Úkraínu. Íslendingar væru nú á tánum eða raunar „algjörlega á hæsta viðbúnaðarstigi gagnvart ógninni sem stafar frá Rússum“ og sagðist Patman telja að Ísland væri til í að grípa til „allra nauðsynlegra aðgerða“ til þess að koma í veg fyrir slíka ógn.
Þá sagði hún að íslensk stjórnvöld hefðu einnig gert sér grein fyrir því að mögulega þyrfti aukna viðveru varnarliðs á Íslandi til þess að tryggja öryggishagsmuni NATO. Að lokum sagðist Patman vilja koma því á framfæri að þrátt fyrir að Ísland væri ekki með herlið gæfi landið NATO mikið.