Greiðslukortavelta 180.679 erlendra ferðamanna á Íslandi í júlí var næstum 24 milljarðar króna. Milli júlímánaða 2014 og 2015 þá fjölgaði ferðamönnum um 25 prósent og greiðslukortavelta þeirra jókst um 31 prósent. Rússneskir ferðamenn eyða mestu.
Rannsóknarsetur verslunarinnar sendi frá sér samantekt í dag yfir greiðslukortanotkun erlendra ferðamanna á Íslandi í júlí. Fram kemur að gistiþjónusta var sá liður ferðaþjónustunnar sem ferðamenn vörðu hæstum upphæðum í, eða 4,7 milljörðum króna. Það er 29 prósent aukning milli ára. Svipaðri upphæði, eða 4,6 milljörðum króna vörðu erlendu ferðamennirnir í ferðir hjá ýmsum ferðaskipuleggjendum. Vöxtur í þeirri grein hefur verið mikil, eða 77 prósent milli ára.
Af erlendri kortaveltu í verslunum fór mest til kaupa í dagvöruverslunum, eða 932 milljónir króna. Erlendir ferðamenn eyddu 763 milljónum til kaupa á fatnaði og 504 milljónum til kaupa í minjagripaverslunum.
Rússar eyða mestu
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með greiðslukorti sínu fyrir um 133 þús. kr. í júlí. Það er um finm prósent hærri upphæð en í júlí í fyrra. Með því að leiðrétta þessa upphæð fyrir verðlagsbreytingum síðustu 12 mánaða nam hækkunin um þremur prósentum á milli ára.
Það voru rússneskir ferðamenn sem keyptu að jafnaði fyrir hæstu upphæðirnar með greiðslukortum í júlí, eða 209 þúsund krónur á hvern ferðamann. Svisslendingar eru í 2. sæti á listanum með 207 þúsund króna eyðslu að jafnaði og Norðmenn eru í 3. sæti með 193 þúsund krónur á hvern ferðamann.