Á hluthafafundi Ríkisútvarpsins ohf.(RÚV), sem haldin var í dag, var ákveðið að reikningsár félagsins verði héðan í frá almannaksárið í stað þess að vera frá 1. september til 31. ágúst ár hvert. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar Íslands. Íslenska ríkið er eini hluthafi RÚV.
Því er ekki von á næsta ársreikningi RÚV fyrr en í byrjun árs 2016.
Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri segir einfalda skýringu á þessum breytingum. „Reikningsár RÚV hefur verið frekar óvenjulegt um árabil. Á síðustu árum hefur þetta fyrirkomulag valdið ítrekuðum vandræðum og það hafa komið fjöldi beiðna frá hinu opinbera um að breyta þessu. Stjórnvöld, stjórn RÚV og stjórnendur félagsins voru sammála því að það væri hentugra fyrir reksturinn að hafa þetta eins og er hjá flestum fyrirtækjum í landinu, og ekki síður eins og fjárlagaárið, enda fær RÚV tekjur af fjárlögum.“
Breytingarnar hafa verið í undirbúningi í töluverðan tíma og unnar í samvinnu við viðeigandi stofnanir, eins og Fjársýslu ríkisins.
Í samtali við stjórnvöld
Það hafa fleiri væringar átt sér stað hjá RÚV undanfarna daga. Í gær var undirritaður samningur um að leigja Reykjavíkurborg hluta Útvarpshússins við Efstaleiti undir starfsemi þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis. Húsaleigan er 4,9 milljónir króna á mánuði og samningurinn er til 15 ára.
Auk þess var á sama tíma tilkynnt um að efnt verði til hugmyndasamkeppni um uppbyggingu á 59 þúsund fermetra svæði við hlið Útvarpshússins. Gert er ráð fyrir að íbúðir verði byggðar á svæðinu. Ráðist var í þessar aðgerðir til að laga fjárhagsstöðu RÚV, en félagið er mjög skuldsett og það hefur bitnað á lögbundnum rekstri fjölmiðla þess.
Varðandi aðrar hagræðingaraðgerðir segir Magnús Geir ekkert liggja fyrir í þeim efnum. „Við erum að vinna úr stöðunni og fara heildrænt yfir hana. Við erum í samtali við stjórnvöld um það. En það liggur ekkert annað fyrir.“