RÚV braut gegn fjölmiðlalögum með því að sýna James Bond kvikmyndina GoldenEye klukkan föstudagskvöldið 9. janúar síðastliðinn. Sýning myndarinnar hófst klukkan 20:55, en hún samkvæmt flokkun er myndin bönnuð börnum innan tólf ára. Samkvæmt fjölmiðlalögum má ekki sýna efni sem er bannað börnum í línulegri dagskrá í sjónvarpi fyrir klukkan 22:00 á kvöldin.
RÚV harmaði mistökin en niðurstaða fjölmiðlanefndar er afdráttarlaus: RÚV braut gegn fjölmiðlalögum. Hins vegar var fallið frá sektarákvörðun í málinu.
Þetta kemur fram í niðurstöðu fjölmiðlanefndar sem var birt í dag.
Handboltaleik um að kenna
Þann 13. janúar síðastliðinn barst fjölmiðlanefnd bréf þar sem vakin var athygli á þessu mögulega broti. Í kjölfarið óskaði nefndin eftir upplýsingum frá RÚV „um hvaða sjónarmið hefðu legið því til grundvallar að myndin var talin hæf til sýningar í sjónvarpi hjá RÚV fyrir kl. 22:00 föstudagskvöldið 9. janúar 2015“.
Í svari RÚV, sem barst 23. janúar, kom fram að þessa „óheppilegu dagskrársetningu hjá RÚV væri að rekja til þess að umrætt kvöld hafi verið bein útsending frá landsleik í handbolta karla sem hafi varað nokkru skemur en gert hafi verið ráð fyrir í dagskrársetningu. Auk þess hafi verið tekin ákvörðun með of skömmum fyrirvara um að falla frá dagskrárliðnum Útsvari, sem hafi átt að vera í sýningu milli landsleiksins og GoldenEye, þar sem dagskrárliðurinn skaraðist við íþróttaútsendinguna. Þetta hafi leitt til þess að GoldenEye hafi farið í loftið klukkutíma fyrr en upphaflega hafi verið gert ráð fyrir í dagskrársetningu umrætt kvöld. Fram kom í bréfi Ríkisútvarpsins að dagskrárdeild sjónvarps harmi þessi mistök“.
Fyrsta brot RÚV
Fjölmiðlanefnd komst síðan að þeirri niðurstöðu síðastliðinn mánudag að RÚV hefði brotið geng fjölmiðlalögum með því að sýna GoldenEye á þeim tíma sem hún fór línulega í loftið. Það var hins vegar ákveðið að falla frá því að sekta RÚV, þótt heimild hafi verið til þess, þar sem um óverulegt brot var að ræða og þetta er í fyrsta sinn sem RÚV fremur brot af þessu tagi.